148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

endurnot opinberra upplýsinga.

264. mál
[17:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel það svo gott sem óhugsandi að við gætum einhvern veginn gengið of langt fyrir regluverk Evrópu í gegnsæi í þessum efnum, sér í lagi vegna þess að stór hluti þessa er í raun og veru tæknilegs eðlis, þ.e. hvernig gögnin eru sett fram.

Hæstv. forsætisráðherra nefndi áðan alveg með réttu að það kostar ákveðna fjárfestingu, kostar ákveðna peninga að setja gögn fram á einhvern annan hátt en þau eru til í sínu upprunalega formi. Oft er það vegna þröskulda, ef ekki hreinlega oftast. Það er vissulega þröskuldur þegar kemur t.d. að þingmálum. Ég lagði fram á sínum tíma, og fékk reyndar samþykkta, þingsályktunartillögu um að þingskjöl væru gefin út á því sem ég ætla að kalla hér véllæsilegu sniði, það er ákveðið flækjustig og kostnaður við að gera það.

Hins vegar hygg ég líka að þeir vefir sem hv. þingmaður nefnir, eins og t.d. umsagnir.gogn.in og vissulega brosandi.gogn.in, sem ég frétti ekki af fyrr en núna og brosti vissulega við að fletta upp, stjórnsýslan þarf ekkert endilega að geta séð fyrir hvernig gögnin ber að nýta, það þarf ekkert endilega að vera í einhverjum tilgangi eða í ægilega göfugum tilgangi. Það þarf líka að geta verið af því bara, bara að gamni, bara til þess að hafa gaman. Ég legg því til að það sé bara fagnaðarefni ef einhverjum finnist gaman að krukka í opinberum gögnum, það er bara frábært, hvað þá að forrita þau.

Ég held að mikið af svona hindrunum, eins og gjaldtaka og slíkt, sé í raun og veru til komið vegna þess að ákveðið hugarfar er í gangi, enginn illhugur eða neitt þannig, bara að það er ákveðinn „tendens“ eða tilhneiging, að um leið og stungið er upp á að eitthvað verði frjálst, þá þurfum við sjálfkrafa að hafa einhverjar reglur, bara einhverjar. Stundum er svarið nei. (Forseti hringir.) Stundum þurfa ekki að vera neinar reglur. Stundum virkar frelsið einfaldlega best. Ég held að það sé mikið til þannig í upplýsingamálum, auðvitað ekki algilt, en fólk mætti alveg hugsa aðeins meira (Forseti hringir.) um slíkt, held ég.