148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

endurnot opinberra upplýsinga.

264. mál
[17:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi hárrétt fyrir sér í þessu.

Ég skal bara segja sem forritari sem hefur skrifað ansi mikið af forritum, smáum og stórum í gegnum tíðina, að ég kannast mjög vel við þá tilfinningu að hafa búið til eitthvað, safnað einhverju saman eða gert eitthvað sem mér finnst ægilega flott en vera af einhverjum ástæðum feiminn við að gefa það út algjörlega frjálst. Þetta er einhver tilfinning sem ég veit ekki alveg hvaðan kemur nákvæmlega, því að nú er ég einarður stuðningsmaður opins hugbúnaðar og opinna staðla og svoleiðis, ég hef samt þessa tilfinningu. En ég held að hún sé svolítið eins og með fordóma og aðra mannlega misbresti, ég held við séum öll haldin einhverjum slíkum tilfinningum sem við losnum kannski ekki endilega við, en við getum áttað okkur á þeim og spornað við þeim með einhverjum öðrum hætti, t.d. að ígrunda málið og spyrja sig: Af hverju ekki að gefa þetta algjörlega frjálst, hvað er það sem ég er hræddur við? Oft er svarið ekkert, bara ekki nokkur skapaður hlutur. Nema við forritarar könnumst auðvitað við það að gera hlutina fyrst án tillits til þess að nokkur maður sæi hvað við værum að gera og síðan gefa það út og hafa svo áhyggjur af gagnrýni, ef maður vandaði sig ekki í byrjun. Það kannast sennilega flestir forritarar við það.

Eins og ég segi, það er bara eitthvað sem maður þarf að vinna aktíft á móti í sjálfu sér. Ég held að til þess að stofnanir geri þetta þurfi lagaumhverfið að vera þannig að það hvetji einmitt til þess sjónarmiðs að ekki sé verið að biðja um einhverja vinnu þegar kallað er eftir gögnum. Það er langbest að þetta sé bara vefsíða, notandi sækir gögn, engin leyfi, engin vinna, enginn tími, engir peningar, ekki neitt, bara einfaldlega opin gögn.

Hvað varðar hugarfar hjá stofnunum, ég held að það sé mikið að skána. Eins og ég segi, gögnin frá Alþingi t.d. eru mjög góð, þau eru ekki jafn ítarleg og ég myndi vilja hafa þau. Það er engan við að sakast, það er bara tæknilega flókið úrlausnarefni. En ég held að þetta sé að skána.

Mér finnst frumvarpið vera einkenni þess að þetta sé allt að skána, jafnvel í hinni stóru Evrópu. (Forseti hringir.) Ég er því bjartsýnn á framtíðina í þessu. Þetta gerist hægar en maður myndi vilja auðvitað, eins og margt annað.