148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.

219. mál
[17:59]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður veit sem er að það er fátt sem ég geri öðruvísi en að hugleiða hvort einkaaðilar geti komið þar að verki. Hugmyndin um að hið opinbera komi á einhvern hátt að varðveislu bóka og innihalds þeirra er ekki ný, það er ekki eitthvað sem verið er að leggja til í fyrsta sinn í sögunni í þessu frumvarpi. Ég og hv. þingmaður deilum áhuga og aðdáun á bókabúðum. Ég spyr hv. þingmann hvort hann deili ekki líka aðdáun minni á bókasöfnum. Þar er prentarfurinn varðveittur í dag. Þar hafa einkaaðilar ekki komið að enn þá. Það má vel vera að einhvers staðar bíði í röðum fjárfestar eftir því að setja fjármuni í þetta og telja sig geta grætt á því; það er þá bara fínt, starfshópurinn getur skoðað það.

En hv. þingmaður talar um timarit.is. Þar er að finna dagblöð landsins. Þar er t.d. að finna Morgunblaðið sem ég veit að hv. þingmaður les með sömu gleði og ég á hverjum degi. (Gripið fram í.) Timarit.is er opinber síða. Morgunblaðið heldur ekki úti timarit.is; eigendur Morgunblaðsins töldu sig ekki þurfa að koma þeirri varðveislu upp heldur gerðu það í gegnum hinn opinbera vef timarit.is.

Hverjum eigum við að treysta fyrir því hvar markaðurinn á að vera og hvar ekki ef ekki Morgunblaðinu, hv. þingmaður?

Mig langar að koma inn á annað hér rétt í lokin sem snýr einmitt að varðveislu menningararfsins. Ég ætla að minna á að bækur gefnar út á Íslandi 1887–1996 eru 53.425. Hluti þeirra er í bókasöfnum. Þar liggja þær jafnvel undir skemmdum. (Forseti hringir.) Það snýr líka að varðveislugildi að fanga innihald bókanna og stafvæða það áður en bækurnar liðast í sundur af mikilli notkun.