148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

vopnaflutningar íslensks flugfélags.

[10:38]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra getur kallað það sem hann vill skítkast. Þegar mál eru falin í eitt skipti getum við kallað þau slys, í annað skipti geta þau hugsanlega verið slæleg vinnubrögð, en þegar það gerist í þriðja, fjórða og fimmta skipti heita það vinnureglur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur svo sannarlega sýnt hverjar vinnureglur hans eru þegar kemur að gögnum sem honum finnst ekki eiga að koma fyrir alþjóð og geta komið flokknum illa.

Mér finnst hins vegar rétt að fá að spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær vissi hann um þessa flutninga? Og þar sem þetta eru umfangsmiklir flutningar: Er það trúverðugt að enginn ráðherra hafi vitað neitt í öll þessi ár? Ef hann vissi það ekki átti hann að minnsta kosti að vita það.