148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:30]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Mér finnst tíma þingsins einfaldlega illa varið. Það er ekki eins og það sé eitthvert baráttumál mitt að fá frumvörp frá þessum þremur Framsóknarflokkum svo þau fari í gegn, en ég veit bara hvernig pólitíkin virkar. Það eru stjórnarfrumvörp sem fara í gegn, ekki þingmannafrumvörp. 95% þingmannamála, myndi ég giska á, sofna í nefnd. Þess vegna finnst mér þetta ákveðinn sýndarskapur, við erum að setja öll þessi þingmannamál á dagskrá til að fylla dagskrána og svo fara þau til nefnda og sofna þar. Mér finnst tíma þingsins einfaldlega illa varið hvað þetta varðar. Við sjáum að hver einasti dagur hefst á því að ráðherrarnir hérna, og ekki síst ráðherrar VG, þurfa að verja hinn pólitíska subbuskap og leyndarhyggjuna þannig að þeirra erindi í pólitík virðist fyrst og fremst vera það. Hugsanlega eru orð fyrrverandi framkvæmdastjóra VG að rætast um hvað VG þyrfti að gera við það að setjast í ríkisstjórn með Sjálfstæðismönnum.