148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:42]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hingað kom hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir og hvatti fólk til dáða á alþjóðlegum hrósdegi. Það er kannski ástæða til að vekja athygli á því að innstæðulaust hrós er háð, hv. þingmaður, og ég efast um að þingmaðurinn sé að kalla eftir því að við berum ríkisstjórnina og stjórnarflokkana einhverju slíku í dag, á þessum alþjóðadegi.

Ég varð vör við ráðherra atvinnuvega og nýsköpunar í þingsalnum áðan og ætlaði heldur betur að nota tækifærið og spyrja hana, fyrst hún var hér, um mál sem eru í hennar ráðuneyti, hvernig gengi þar. Hvernig gengur t.d. að koma á stefnu stjórnvalda í ferðamálum sem Ríkisendurskoðun benti á að skorti verulega á árið 2015, árið 2016, árið 2017 og nú árið 2018 er þetta enn ókomið fram. Hvar er þetta, hæstv. ráðherra?