148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:43]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er góð umræða vegna þess að hún gefur okkur tækifæri til þess núna meðan tími er til að endurskoða starfsáætlun Alþingis, þannig að ég greip boltann í þessari umræðu þegar ég var að hlusta á umræðuna sem varaforseti á þingi, sitjandi þar af leiðandi í forsætisnefnd sem er ábyrg fyrir starfsáætluninni, sem er ábyrg fyrir því að þingið hafi þá starfsdaga sem það þarf til að sinna sínu lögbundna hlutverki, að sinna faglegri lagagerð, vinna stjórnarmál o.s.frv.

Ég fór því í hliðarherbergið, talaði við fjóra ráðherra. Þeir eru í mismunandi stöðu með sín mál en sögðu að hægt væri að fá frá ráðuneytunum upplýsingar um þingmálaskrá sem hefur verið lögð fram og forsætisnefnd hefur tekið afstöðu til um hvernig hún ætli að stilla upp þingdögunum. Væri gott í ljósi þess að fá þá núna uppfærðar upplýsingar um stöðuna á þessum málum frá ráðuneytunum, hvenær líklegt yrði að það allt verði tilbúið fyrir þingið svo við getum farið að meta hvað við getum þurft langan tíma í þinginu til að vinna þessi mál. Ég mun óska eftir því í forsætisnefnd, ég óska eftir því við hæstv. forseta, Steingrím J. Sigfússon, (Forseti hringir.) að við gerum það hér með formlega og fáum það á dagskrá næsta fundar í forsætisnefnd. Þá fáum við upplýsingar sem við veitum síðan þinginu og tökum þetta mál faglega áfram.