148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég er kominn hingað til þess að lýsa sérstakri ánægju minni yfir því hvað ríkisstjórnin leggur fram fá mál, hún gerir þá ekkert af sér á meðan. Ég bendi hins vegar á að hér liggur fyrir fjöldi af þjóðþrifamálum frá þingmönnum sem væri gott að fá tíma til að ræða. Mig langar að minnast á eitt mál sem er nýframlagt af hálfu Miðflokksins og það fjallar um að fella út húsnæðislið úr vísitölu sem mælir verðbreytingar á lánum. Það er stórmál sem þarf mikla umfjöllun hérna og mikla umfjöllun í nefnd og ég hvet því eindregið til þess að hæstv. forseti setji það mál á dagskrá ásamt fleiri góðum þingmannamálum hið allra fyrsta.

Það er hins vegar annað ef og þegar ríkisstjórnin tekur á sig rögg og hellir hér inn málum getur ríkisstjórnin ekki ætlast til þess og ekki búist við því að þingmenn verði hér eins og einhverjir átómatískir stimpilpúðar og afgreiði hvert málið af öðru í gegnum þing og nefndir bara svona eftir handarvendingu frá hæstv. ríkisstjórn.

Ég segi því við hæstv. forseta og hvet hann til að setja þessi (Forseti hringir.) góðu þingmannamál á dagskrá og hafa hér langa fundi um þau þannig að við getum átt góðar umræður um þau.