148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[12:58]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég segja að mér þykir leitt að hv. þm. Birgir Þórarinsson tekur viðskiptahagsmuni Íslands og mögulegan ferðamannastraum fram yfir mannréttindi barna. Það finnst mér mjög alvarlegt. Í öllum flutningi málsins, og í ræðu minni sem ég flutti hér fyrir tveimur vikum, kom fram að málið grundvallast á að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland innleiddi 2013, sé brotinn með því að gera aðgerðir á börnum sem hafa ekkert um það að segja, kvalafullar aðgerðir, sem geta haft slæmar afleiðingar. Sem betur fer kveljast ekki allir menn sem hafa verið umskornir vegna þess í dag.

Varðandi fullyrðingu þingmannsins, um að hér séu ekki gerðar slíkar aðgerðir á drengjum, þá er það rangt. Ég hef undir höndum bréf frá landlækni þar sem teknar voru saman fyrir mig nýjar tölur um hversu algengur umskurður er. Þeir eru fleiri en hv. þingmaður heldur hér fram. Ástæðan fyrir því að ég legg þetta mál fram, og við átta þingmenn úr fjórum flokkum, er ekki sú að þetta sé orðið svo stórkostlegt vandamál á Íslandi að bregðast þurfi við. Þvert á móti. Það grundvallast á sömu rökum og bann við umskurði á stúlkum og konum, þegar það var lagt fram 2005, þ.e. að koma í veg fyrir að þetta verði gert við lítil börn sem geta ekki varið sig.

Ég get alveg farið í rökfærslur varðandi barnasáttmálann og fleiri atriði. Ég vil líka segja að frumvarpið brýtur ekki, ef umskurður drengja verður bannaður, á trúfrelsi foreldra. Ég vil taka á móti flóttafólki hingað. (Forseti hringir.) Ég tel ekki að þetta hafi neikvæð áhrif á það. Hingað verður fólk áfram velkomið að koma. Í mínum huga hefur þetta mál fengið mjög jákvæða athygli út um allan heim.