148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[13:30]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við skiptumst í pólitískar fylkingar og flokka út af ólíkum hugsjónum og hugmyndum um hagsmuni og réttindi, um það hvernig við deilum byrðunum og hvernig við útdeilum gæðunum. Við höfum alls konar skoðanir á því og stundum binst fólk í flokka út af afmörkuðum hagsmunum og berst fyrir þeim og stundum binst fólk saman í flokka út af almannahagsmunum og berst fyrir þeim á kostnað sérhagsmuna. Og svo deilir fólk líka um hversu langt réttindi hópa eigi að ganga og hvaða réttindi séu gildari en önnur þegar þau virðast rekast á. Þetta er það sem í grófum dráttum má segja að skipti okkur í flokka, hvernig samfélagsgerð við aðhyllumst.

En svo geta komið upp mál þar sem við skiptumst í hópa þvert á þessa hefðbundnu flokkaskiptingu. Þar geta komið upp alls konar önnur sjónarmið. Þau geta verið persónuleg, persónuleg reynsla af viðkomandi málefni, tilfinningar okkar og trúarbrögð, viðhorf okkar til annarra hópa en við teljum okkur tilheyra í menningarlegu eða þjóðernislegu tilliti og alls konar.

Þetta mál sem við erum að ræða hér í 1. umr. er mál af þessu tagi sem ég hef á tilfinningunni að fólk hafi tekið afstöðu til þvert á hefðbundna flokkaskipan. Sjálfur hef ég haft á þessu máli mjög eindregnar skoðanir en ekki alltaf þær sömu. Ég hef svolítið sveiflast í þessu máli eins og náttúrlega við öll, eftir því hvað maður les hverju sinni, því að það hafa margir tjáð sig um þetta af miklum tilfinningahita. Sem er skiljanlegt. Þetta er þannig mál. Og það er skiljanlegt að maður hrífist með tilfinningaríkum málflutningi sem varðar réttindi barna og að maður hrífist af tilfinningaríkum málflutningi sem snýst um réttindi minnihlutahópa. Og líka þegar maður kynnir sér tilfinningaríkan málflutning sem snýst um sambýli ólíkra hópa í fjölmenningarsamfélagi nútímans því að hvort sem okkur líkar betur eða verr erum við öll hér á þessari litlu jörð og sitjum uppi hvert með annað og þurfum að reyna að búa saman í sem mestum friði og hafa sem mesta ró í kringum okkur eins og hv. þm. Brynjar Níelsson reyndi að skapa hér í morgun á sinn ágæta hátt.

Ég hafði efasemdir um þetta mál í byrjun þegar þetta kom fyrst fram. Þetta sló mig. Ég verð að játa að ég hafði ekki gaumgæft þetta mál sérstaklega. Það sem sló mig strax var sú hugsun að það væri varasamt að einn hópur sem aðhyllist ákveðin gildi tæki altækar ákvarðanir um málefni annars hóps sem aðhyllist önnur gildi og aðra siði og aðrar venjur. Að hópur A taki altækar ákvarðanir sem gilda um allt samfélagið og þá sérstaklega um siði og venjur hóps B og geri siði og venjur hóps B refsiverðar, glæpsamlegar, lýsi með lagasetningu því yfir að grundvallaratriði í sjálfsmynd og menningu viðkomandi hópa séu viðurstyggð og glæpsamleg. Að einn hópur ráðskist svo mikið með siði og venjur annars hóps. Mér fannst þetta varasamt í því fjölmenningarsamfélagi nútímans sem við sitjum uppi með.

Mér fannst líka skipta máli í þessu sambandi að hér er um að ræða hóp, trúarhóp eða þjóð, menningarlegt mengi, gyðinga sem hafa búið við ofsóknir í Evrópu öldum saman. Síðasta öld geymir hræðilegar sögur sérstaklega um ofsóknir á hendur gyðingum. Þessi venja gyðinga, umskurður, er grundvallarþáttur í sjálfsmynd þeirra. Þú ert ekki orðinn hluti af þeirra samfélagi, karlkyns hluti, fyrr en þú hefur verið umskorinn.

Mér fannst strax gæta í umræðunni um þetta mál sem maður reyndi að fylgjast með á netinu — maður sér náttúrlega alls konar ummæli á netinu sem maður á kannski ekki að taka alvarlega — ákveðinnar tilhneigingar þar sem gætti fordóma í garð gyðinga sem mér fannst óþægilegt að sjá, sérstaklega í ljósi sögunnar. Skyldi þá enginn ætla að ég sé að bera blak af öllu því sem gert er í nafni gyðinga, t.d. í Ísrael.

Mér fannst að þarna tækjust á trúfrelsi og einstaklingsfrelsi, trúarsiðir gegn veraldlegri hyggju, sekúlarisma, og það fór eftir því hvernig stóð í bóli hjá mér þann daginn, hverju sinni, hvernig ég sveiflaðist í afstöðu minni til þessa.

Þetta snýst reyndar ekki bara um gyðinga þó að ég geri þá hérna að umtalsefni heldur er þetta eins og við vitum líka siður meðal múslima þó að múslimar hafi þennan sið svolítið seinna á ævinni. Þeir taka ekki börn á áttunda degi og umskera.

Ég vil árétta að það er kannski einn þriðji mannkyns sem stundar þetta. Við erum að stíga inn í ákveðnar aðstæður þegar við setjum svona lög og ágætt að við gerum okkur grein fyrir því að við erum að hlutast til um málefni bæði múslima og gyðinga sem eins og kunnugt er eiga í miklum deilum fyrir botni Miðjarðarhafs. Þó held ég ekki að þetta frumvarp sé beinlínis ætlað sem innlegg í sáttaferli þeirra aðila þannig að þeir geti sæst og snúist gegn okkur.

En almennt um trú. Ég held að við verðum aðeins að hugsa um trúmál í þessu samhengi. Mér finnst trúfrelsi vera einn af hornsteinum okkar opna samfélags. Þegar ég tala um trúfrelsi á ég við að maður geti bundist samtökum við fólk sem er sama sinnis og maður sjálfur um tiltekinn átrúnað á æðri máttarvöld sem stýri gangi heimsins og verið með þessu fólki í tilbeiðslu og bæn. Það á skilið virðingu þeirra sem ekki tilheyra því samfélagi sjálfir, upp að vissu marki. Það á skilið í versta falli afskiptaleysi, sinnuleysi. Rétt eins og við álítum það rétt okkar að deila ekki þeim átrúnaði.

Í mínum huga snýst trúfrelsi um hugarfar, um tilbeiðslu, bænahald, trú, átrúnað, hugmyndir en ekki endilega verknað. Það er t.d. hægt að setja í trúarlegt samhengi það að aðhyllast fjölkvæni. Sumir trúarhópar leyfa fjölkvæni, t.d. mormónar. Nei, þeir eru víst hættir því. En það var ein af grunnstoðum mormóna að stunda fjölkvæni. Slíkt tíðkast í vissum samfélögum. En við bönnum fjölkvæni í okkar samfélagi og færum fyrir því margvísleg rök sem ég ætla ekki að fara að rekja hér. Á sama hátt eru aðrir siðir sem settir eru í trúarlegt samhengi, þ.e. gerðir að einhverjum valdboðum innan þessara hópa, bannaðir í okkar samfélagi vegna þess að þeir eru taldir fara í bága við almenn réttindi einstaklinganna og mannréttindi.

Við búum í samfélagi sem á sér rætur í frönsku stjórnarbyltingunni á átjándu öld. Eitt meginatriði frönsku stjórnarbyltingarinnar var að losa samfélagið undan veldi kirkjunnar, losa einstaklingana undan því að hlýða prestum, að prestar og kennimenn réðu daglegu lífi fólks og hefðu yfir fólki að segja í lífi þess. Smám saman breiddist þetta út, líka að lokum til okkar. Hér á Íslandi ríkti um aldir trúræði, teókrasí. Prestar og kirkjunnar menn réðu alveg ótrúlega miklu um daglegt líf fólks sem hóf sinn stritandi vinnudag á því að signa sig og endaði svo seint um kvöldið á því að fara með kvöldbæn og var stritandi með guðs orð á vör allan daginn.

Við lítum svo á að trú eigi skilið virðingu og eigi að hafa sinn sess í samfélaginu en ekki stjórna því. Ég er nú búinn með tímann. Það eru margvísleg rök fyrir því, sem ég var svo sem ekki búinn að fara með öll, að samþykkja svona frumvarp. (Forseti hringir.) Ég styð anda þessa frumvarps. (Forseti hringir.) En ég tel að það sé grundvallaratriði að við komum á því sem við viljum sagt hafa í samtali frekar en valdboði. (Forseti hringir.) Ég tel að þingið eigi að hafa aðrar leiðir við að koma vilja sínum á framfæri í þessu máli en með hegningarlögum.

(Forseti (BHar): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörkin. )