148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[13:46]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni fyrir ákaflega góða og yfirgripsmikla ræðu. En kannski til að fá að spyrja, fyrst ég hef bara eina mínútu: Erum við ekki sammála um að Alþingi er tiltölulega góður vettvangur til samtals? Ein af ástæðum þess að sú sem hér stendur lagði þetta frumvarp fram ásamt fleirum er akkúrat að koma málinu í einhvern farveg, að það fái þá umræðu og þá skoðun sem það á skilið. Þetta er mjög flókið mál að mörgu leyti eins og þingmaðurinn fór yfir. Ég spyr hvort við séum ekki sammála um að nefndarvinnan sem fram undan er sé mjög mikilvæg. Á fund nefndarinnar munu koma gestir. Við munum fá umsagnir frá þar til bærum aðilum sem hafa þekkingu á málunum. Erum við ekki bara sammála um að það sé (Forseti hringir.) það sem þetta mál á skilið? Við þurfum ekkert að hengja okkur í sex ár eða tvö eða þrjú heldur fyrst og fremst fara vel yfir málið.