148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

Landsréttur.

[15:13]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er athyglisvert að heyra að dómsmálaráðherra njóti fulls trausts hjá forsætisráðherra þegar dómsmálaráðherra hefur tvívegis verið dæmd í Hæstarétti fyrir embættisfærslur sínar. Í bréfi umboðsmanns kemur skýrt fram að rökstuðningur Hæstaréttar er að hans mati mjög skýr. Það eru þessi fimm mál sem eru til meðferðar hjá dómstiginu nú þegar. Við erum með skýr fordæmi utan úr heimi um það hvað gerist þegar dómarar eru ekki skipaðir með réttum hætti. Fari svo að þessi mál fari alla leið til Mannréttindadómstóls Evrópu erum við að horfa á mögulega næstu tvö ár þar sem verið er að rannsaka hvort dómarar við Landsrétt séu hæfir til að dæma. Ég verð að segja sem fyrrverandi lögmaður að ég hef verulegar áhyggjur af þessari stöðu af því að skaðabótaskylda íslenska ríkisins í kjölfarið getur orðið slík að ég held að forsætisráðherra ætti að hafa líka áhyggjur af þessari stöðu.