148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[16:25]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Mig langar í síðari hluta þessarar umræðu aðeins að beina augum að öðrum þáttum. Það liggur fyrir að lögreglan þarf að vera í stakk búin til að sinna verkefnum sínum og gæta öryggis borgaranna. Við megum heldur ekki gleyma því að þetta mál snýst ekki eingöngu um það að við höfum eins sterka lögreglu og hægt er í landinu. Þetta snýst líka um það að við hugum að því að jarðvegur fyrir glæpi verði ekki frjórri en nauðsyn ber til — ég get þó varla orðað það svo, því að það er mjög óviðeigandi, en við eigum að koma í veg fyrir að jarðvegurinn verði til.

Við erum með viðkvæma hópa í samfélaginu. Við höfum nefnt stöðu innflytjenda og þeirra sem sækjast eftir því að koma til landsins. Ég held að við þurfum að skoða mjög vel að hér verði ekki til jarðvegur fyrir glæpastarfsemi. Það getum við gert með því að hlúa vel að þeim sem hingað koma, vera með fræðslu og gæta þess að ekki skapist félagsleg einangrun; að við búum ekki þannig um hnúta að til verði hverfi sem eru fyrst og fremst byggð tilteknum þjóðfélagshópum sem hafa orðið út undan í samfélaginu. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við hugum að þessu samhliða og þar með t.d. stefnu okkar í baráttunni við fíkniefnin; að við hugum að því hvaða þættir það eru í þjóðfélaginu sem við getum bætt til þess að koma í veg fyrir glæpi.