148. löggjafarþing — 34. fundur,  6. mars 2018.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Laust fyrir miðnætti í gær lögðu þingflokkar Pírata og Samfylkingar fram vantrauststillögu á hendur dómsmálaráðherra. Ástæða tillögunnar eru þau ítrekuðu brot sem dómsmálaráðherra hefur framið í starfi, endurteknar tilraunir hennar til að losa sig undan ábyrgð og algjör skortur á vilja til að leita uppbyggilegra leið og lausna í takt við góða stjórnarhætti.

Einhverjir vilja kalla það formstagl að krefjast þess að farið sé að lögum, en krafan um að ráðherrar fari að lögum í störfum sínum er miklu meira en krafa um form. Það er grundvallarkrafa í stjórnskipun landsins og í réttarríkinu að stjórnvöld fari að landslögum. Krafan um ábyrgð er bæði eðlileg og réttmæt. Við lítum svo á að dómsmálaráðherra hafi starfað á hátt sem er almenningi á Íslandi ekki bjóðandi. Það er ekki tækt að ráðherra dómsmála hafi verið dæmd af æðsta dómstól landsins fyrir brot á lögum við skipan dómara og sitji áfram sem ráðherra. Slíkt ýtir undir þá ímynd sem margir hafa af stjórnvöldum í samfélaginu um að aðrar reglur gildi um valdastéttina en um almenning.

Uppgjör við þá ímynd er þjóðþrifamál. Samkvæmt nýrri mælingu Gallups hefur traust almennings til dómskerfisins hrapaði um 7% á einu ári og stendur nú í 36%, en með því skipar Ísland sér í hóp með þeim ríkjum sem neðst mælast í Evrópu. Traust til Alþingis hefur mjakast lítillega upp á við og stendur nú í 29%. Það er mjög jákvætt en nú þarf Alþingi að gjöra svo vel og standa undir því trausti.

Þetta var ekki auðveld ákvörðun fyrir okkur. Það leikur sér enginn að því að leggja fram vantrauststillögu. Þótt vissulega hafi þetta mál, og aðrar embættisfærslu ráðherra, verið lengi rætt í ljósi þeirra ákvarðana sem dómsmálaráðherra hefur tekið þá höfum við lagt áherslu á að fá fram niðurstöður dómstóla, upplýsingar í gegnum stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, umsögn umboðsmanns Alþingis og í hvívetna gert allt til að tryggja góða málsmeðferð. Við höfum hvorki áhuga á pólitískum aftökum né stundum við þær.

Nei, forseti. Það sem við höfum áhuga á er gott stjórnarfar á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)