148. löggjafarþing — 34. fundur,  6. mars 2018.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Búnaðarþing var sett í gær við hátíðlega athöfn. Í setningarræðu sinni lýsti formaður samtakanna yfir þungum áhyggjum yfir tollasamningi íslenskra stjórnvalda og ESB um landbúnaðarvörur, sem tekur gildi 1. maí nk. Samningurinn er mjög óhagstæður bændum. Hann var gerður án samráðs við hagsmunaaðila. Samningurinn var gerður af þáverandi landbúnaðarráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, og svo virðist sem ráðherrann hafi gert hann upp á eigin spýtur.

Samningurinn kom bændum í opna skjöldu og nú blasir veruleikinn við þegar innflutningur á kjöti og ostum frá ESB hefst af fullum krafti. Samningurinn endurspeglar ekki gífurlegan stærðarmun markaðanna. Evrópa telur rúmar 500 milljónir manna en Ísland aðeins 340 þúsund. Ekki er tekið tillit til samkeppnisfærni íslensks landbúnaðar í ESB. Engin úttekt fór fram á afleiðingum samningsins fyrir íslenskan landbúnað. Þetta sýnir hversu óvönduð samningsgerðin var.

Verulega hallar á okkur í ostum, ESB fær að flytja til Íslands 610 tonn en við til ESB aðeins 50 tonn. Öll ríki vernda landbúnað sinn. Landbúnaður er mikilvæg atvinnugrein á Íslandi, framleiðir hágæðavörur, veitir fjölda fólks atvinnu um allt land og treystir byggðir landsins. Bændur vilja samkeppni en hún á að vera á jafnræðisgrunni. Tollasamningurinn á að færa íslenskum bændum sömu möguleika í Evrópu og ESB fær hér á landi. Það gerir samningurinn ekki.

Þolinmæði bænda gagnvart Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki í þessu máli er undarleg. Framsóknarflokkurinn hefur gefið sig út fyrir að vera sérstaklega hliðhollur bændum. Í þessu stóra máli eru það hrein öfugmæli. Ríkisstjórnin á að segja tollasamningnum við ESB upp og semja upp á nýtt. Það má rökstyðja með því að Bretar eru að ganga úr ESB. Okkar stærsta og besta markaðssvæði er því horfið úr samningnum.