148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[19:01]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Ég bjóst ekki við sérstakri auðmýkt í umræðum hér í dag af hálfu hæstv. ráðherra dómsmála, en ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugmyndaflug í það að þingheimur sæti undir hótunum. Það hefur ekki verið auðvelt að sitja undir vantraustsumræðu á ráðherra vegna embættisfærslna sem voru unnar í tíð ríkisstjórnar sem ég studdi, vegna embættisfærslu sem ég studdi. Síðan hefur ljósi verið varpað á ákveðin atriði í samskiptum hæstv. ráðherra og Alþingis og alvarleiki þess ítrekaður í nýju bréfi umboðsmanns Alþingis. Hæstv. ráðherra brást trausti Alþingis, brást skyldu sinni. Hann stóð ekki undir trausti og ég segi já við þessari tillögu.