148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar mikið að fjalla um þau rök sem komu fram í umræðunni um vantrauststillögu í gær. Mig langar t.d. að vita af hverju ekki er hægt að samþykkja vantraust á dómsmálaráðherra af því að þessi stjórn eigi eftir að gera svo mörg góð verk og af hverju stjórnarsamstarfinu lýkur ef vantraust verður samþykkt. Eina útskýringin sem ég sé er að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hótað að slíta samstarfi ef vantrauststillagan hefði verið samþykkt. Samstarfsflokkarnir beygðu sig sem sagt undir þá hótun því að annars gætu þau ekki unnið öll þau góðu verk. Það er sem sagt verið að segja að þessi góðu verk verði ekki unnin nema Sjálfstæðisflokkurinn sé í stjórn. Í því felst ákveðinn dómur á aðra flokka á þingi sem ég er ekki tilbúinn til að gangast undir.

En ég þarf hins vegar að fjalla um erindi mitt til forsætisnefndar. Nýlega hefur nefndin fengið lögfræðiálit sem fjallar um erindi mitt með lögfræðigleraugum. Það álit rangtúlkar erindi mitt á svo marga vegu, eins og gengur og gerist þegar þýtt er úr einu tungumáli yfir í annað. Markmið erindisins er að forsætisnefnd rannsaki þær endurgreiðslur sem skrifstofustjóri þingsins segir í fjölmiðlum að hafi ekki verið rannsakaðar, að nefndin meti hvort einhverjar endurgreiðslur geti varðað brot á lagareglum sem þarfnast úrskurðar þar til bærra stjórnvalda eða dómstóla. Nauðsynlegt er að nefndin fjalli um hæfi sitt til að leggja mat á sjálfar endurgreiðslurnar af því að þær geta varðað nefndarmenn sjálfa.

Ég vil þess vegna beina því til forseta að hlusta á efni erindisins en ekki á þröngan lögfræðiútúrsnúning á því, vegna þess að ef erindinu er vísað frá vegna þýðingar yfir á lögfræði, þá verð ég bara að senda annað erindi og annað og annað þar til þýðingin verður loksins rétt. Maður á nefnilega ekki að þurfa að vera lögfræðimenntaður til að senda nefndinni erindi. Forseti getur sparað þinginu og forsætisnefnd ómælda vinnu með því að setja ekki upp þröngsýn lögfræðigleraugu til að skjóta sér undan þeirri ábyrgð að sinna því eftirliti sem erindið krefur forsætisnefnd um.