148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er ágætt að hér sé talað um traust á Alþingi og mjög jákvætt eins og ég sagði í gær að það sé að aukast. Það eru tvö mynstur sem koma reglulega upp í umræðum á Alþingi sem mér þykja skammarleg fyrir það hvernig við störfum hérna. Fyrra mynstrið snýst um það að bera fyrir sig vanskilning. Seinna mynstrið snýst um að gagnrýna orðfæri frekar en innihald.

Það að bera fyrir sig vanskilning er óformleg rökvilla. Ég skil ekki x, þar af leiðandi er x rangt. Þegar fólk beitir þessari rökvillu er það undir því yfirskini að það sé máli þess til framdráttar og þá er það að lítillækka sjálft sig. Öllum er fullkomlega ljóst að það hefði verið hægt að kynna sér málið og jafnvel gera tilraun til að skilja afstöðu andstæðingsins. Það væri jafnvel vitsmunalega heiðarlegt að leggja metnað í að skilja hvað andstæðingurinn er að segja, ganga út frá því að viðkomandi sé ekki vitleysingur og mæta svo rökum með mótrökum ef einhver eru. Það að bera fyrir sig vanskilning er málsvörn rökþrota manns.

Það að gagnrýna orðfæri frekar en innihald er afbrigði hinnar frægu ad hominem rökvillu. Fullyrðing x inniheldur orð sem mér líkar ekki, þar af leiðandi er fullyrðing x röng. Þegar fólk beitir þessari rökvillu er það einkum gert til að búa til þá ímynd að fólk sem notar ákveðið orðalag sé illa innrætt eða jafnvel illa gefið. Í þessu felst stundum ákveðin árás á menntun eða þekkingu viðkomandi en í raunveruleikanum er þetta árás á tungumálið sjálft þar sem grafið er undan merkingu orðanna sjálfra í þágu ákveðins málstaðar. Þetta sjá allir sem vilja og þeir sem gagnrýna orðfæri gagnrýna einmitt ekki innihald. Það er vitsmunalega heiðarlegra að leggja metnað í að skilja hvað andstæðingurinn er að reyna að segja, ganga út frá því að viðkomandi sé ekki vitleysingur og mæta svo rökum með mótrökum ef einhver eru. Það að skammast yfir orðfæri er málsvörn rökþrota manns.

Þegar þetta hefur verið útskýrt vona ég (Forseti hringir.) að við getum reynt að taka höndum saman um að úthýsa þessum þreyttu rökvillum frá Alþingi fyrir fullt og allt.