148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

kjararáð.

[10:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég skil það svo að hv. þingmaður sé hér að færa fram gagnrýni á að þeir sem gegna störfum fyrir ríkið, eins og þeir sem sitja í kjararáði, eigi ekki yfir tíma að fá breytingar á tímagjaldi sínu sem fylgi vísitölu launa í landinu heldur eigi að taka eitthvert annað viðmið. Ég held að ef að væri gáð kæmi í ljós að tímagjald sem ríkið greiðir fyrir sérfræðiþjónustu almennt liggur einhvers staðar á því bili sem kjararáðsmeðlimir hafa haft í tímagjald í verktöku.

Það er sjálfsagt að fara yfir það í þinginu með hvaða hætti fjármálaráðuneytið ætti að ákvarða breytingar á töxtum yfir lengri tíma. Launavísitalan er vissulega ekki fullkomin til þess.

Hv. þingmaður spyr hvort mér finnist að laun ráðherra eða þingmanna ættu að taka breytingum til samræmis við launavísitölu. Ég vil þá svara því þannig að mér líst heldur betur á tillöguna sem er að finna í nýrri skýrslu um þessi efni þar sem lagt er til að við horfum til meðaltalsbreytinga hjá opinberum starfsmönnum.

Að öðru leyti verð ég að segja að hv. þingmaður fær mig ekki til þess að koma með nýjar útfærslur á því með hvaða hætti taka eigi ákvarðanir um þessi efni fyrir þingmenn eða ráðherra. Við höfum gert grein fyrir því að við hyggjumst fylgja eftir þeirri niðurstöðu sem birtist í nýrri skýrslu um þessi efni og ég vinn að frumvarpi til breytinga á lögum í samræmi við þá niðurstöðu.