148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

Bankasýsla ríkisins.

[10:56]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra talar um að áform hafi verið um að Bankasýslan hefði þennan líftíma á sínum tíma. En við verðum að rifja upp að Bankasýslan var sett á stofn vegna tímabundins ástands vegna þess sem átti sér stað 2008. Henni var markaður líftími í lögunum og sá tími er löngu liðinn. Hann er liðinn fyrir þremur og hálfu ári.

Ég tel að það sé fullkomin óvissa um gjörðir stofnunarinnar eftir það tímamark. Ástandið er liðið. Lögin hafa gildistíma. Sá gildistími er liðinn.

Og vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra er æðsti maður skattkerfisins spyr ég: Haldið þið að menn reisi t.d. skattskyldu á lögum sem samkvæmt orðanna hljóðan eru liðin undir lok? Haldið þið það? Nei, það held ég ekki. Eða að refsing verði lögð á samkvæmt lögum sem fallin eru úr gildi?