148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

stofnefnahagsreikningar.

65. mál
[11:11]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum að greiða atkvæði um þingsályktunartillögu um gerð stofnefnahagsreikninga fyrir ríkissjóð í heild og einstaka ríkisaðila í A-hluta. Hér er um grundvallarbreytingu að ræða þar sem reikningsskil fyrir A-hluta verða í heild gerð á grundvelli alþjóðlegra reikningsskilastaðla á rekstrargrunni. Þar sem við felum í raun stjórnvöldum framkvæmdina að lokinni innleiðingu breytinganna skal reikningshaldsleg meðferð eigna og skulda uppfylla kröfur slíkra staðla.

Breyting þessi er í samræmi við 52. gr. laga um opinber fjármál. Er hér verið að færa reikningsskil á rekstrargrunn og mun efnahagsreikningurinn breytast helst frá því sem áður var þar sem fjárfestingar verða eignfærðar og afskrifaðar á líftíma sínum. Rekstrargrunnur þýðir einfaldlega að það er verið að færa gjöld og tekjur á það tímabil sem til þeirra er stofnað. Öll hv. fjárlaganefnd er samþykk þessari tillögu.