148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

Arion banki.

[13:49]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða hér málefni Arion banka og ég þakka hv. þingmanni og málshefjanda, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrir þessa umræðu. Eins og kom fram í framsögu hv. þingmanns eru hér vissulega gífurlegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir ríkið. Öllum er það ljóst. Okkar hlutverk er skýrt í þeim efnum, að verja hagsmuni ríkissjóðs og almennings. Þessi umræða gefur tilefni til að meta í víðara samhengi fjármálakerfið í heild í þessum efnum. Hæstv. forsætisráðherra rakti málið mjög glögglega. Það er gott, eins og hefur verið það sem af er umræðunni, að hugsa þetta mál í tímalínu frá 2009.

Hæstv. forsætisráðherra fór vel yfir viðbrögð núverandi hæstv. ríkisstjórnar og ríkisstjórna þar á undan þar sem m.a. hv. málshefjandi var í forsæti. Hæstv. forsætisráðherra hrósaði hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir framgöngu hans í því máli, bæði þegar skilyrðin voru sett og gengið frá samningum. Ég get ekki annað en tekið undir það hrós, ég varð vitni að því, og umræðan dregur á engan hátt úr því að hann hefur varið hagsmuni ríkissjóðs. Það er kannski það mikilvægasta í þessu máli og það er það sem við eigum að horfa á. Fyrst er fortakslaus kaupréttur á þeim hlut sem hefur skilað nettótekjum frá 2009 upp á 11,2 milljarða.

Maður spyr sig: Hefði verið hægt að taka meiri áhættu? Hvar hefði verið möguleiki á að fara öðruvísi með þann hlut ef við byrjum þar? Mögulega þegar málið var tekið upp í samningum og skilyrði sett? Ég velti því fyrir mér en held svo áfram með (Forseti hringir.) þessa tímaröð í seinni ræðu.