148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

Arion banki.

[14:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir fyrir þessa umræðu. Ég lauk fyrri ræðu minni við þann hlut ríkisins sem kom til 2009 og var seldur enda metið að réttur kaupanda væri ótvíræður og fortakslaus og ekkert annað í stöðunni en að standa við þá samninga. Það var metið af Bankasýslu.

Þá erum við komin næst í þessari tímaröð að stöðugleikasamningum. Ég tek undir með hv. þm. Óla Birni Kárasyni, þeir gjörbreyttu hér öllum efnahagslegum forsendum. Hv. þingmaður nefndi í heild 458 milljarða, ef ég man rétt. Hluturinn bara af Arion banka í þessu er 139, það kemur fram í fjárstreymisyfirliti sem er birt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytis, og hefur farið í að greiða niður skuldir, lækka vaxtabyrði eins og var bundið í lög þá sem var afar skynsamlegt. Þetta hefur gjörbreytt öllu og ber að fagna hversu vel tókst til.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, málshefjandi, var forsætisráðherra í þeirri ríkisstjórn og fær hrósið enda á hann það skilið. Þess vegna verð ég að segja, virðulegi forseti, að eftir framsöguræðu hv. þingmanns fannst mér fremur óskýrt hvaða leið aðra hv. þingmaður hefði viljað fara. Ef við horfum á heildarniðurstöðuna úr þessu Arion banka máli upp á 150 milljarða kr. er það ekki hægt. Það er ekki hægt að segja annað en að þessir samningar hafi verið ríkissjóði hagfelldir.