148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[20:19]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár. Með frumvarpinu er lagt til að reglugerð ESB um svokallaðar OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár verði veitt lagagildi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 206/2016. Reglugerðinni er ætlað að auka gagnsæi og draga úr áhættu á mörkuðum með afleiður, m.a. með reglum um milligöngu miðlægra mótaðila í afleiðuviðskiptum og miðlægri söfnun upplýsinga hjá afleiðuviðskiptaskrám.

Það er vert að vekja athygli þingheims á því að við umfjöllun nefndarinnar komu fram athugasemdir um tvö atriði, annars vegar þann refsiramma sem ákvarðaður er í 12. gr. frumvarpsins vegna brota gegn ákvæði 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, um að miðlægur mótaðili megi ekki starfa án starfsleyfis, og hins vegar þá afturvirkni sem felst í því að við gildistöku frumvarpsins að lögum verði allir afleiðuviðskiptasamningar sem voru opnir 1. júlí 2017 tilkynningarskyldir til afleiðuviðskiptaskrár. Þá var reglugerðin hluti af EES-rétti með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Samkvæmt 12. gr. frumvarpsins skulu brot gegn 1. mgr. 14. gr. reglugerðar ESB varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Nefndinni var bent á að reglugerðin geri ekki kröfu um svo þung viðurlög við brotum gegn greininni heldur falli hún undir viðurlagaákvæði 3. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar sem gerir þá kröfu til aðildarríkja að tryggja möguleika á beitingu viðeigandi stjórnsýsluráðstafana í samræmi við landslög gagnvart þeim einstaklingum eða lögaðilum sem bera ábyrgð á að reglugerðinni hafi ekki verið fylgt.

Í minnisblaði til nefndarinnar kemur fram sú afstaða fjármála- og efnahagsráðuneytisins að það sé undir EES-ríkjunum sjálfum komið að ákvarða refsingar við brotum gegn landslögum. Þótt rétt sé að líta til þeirra landa sem við berum okkur saman við um refsiramma og það hvort brot séu refsiverð er ekki síður mikilvægt að gæta samræmis í innlendri löggjöf á fjármálamarkaði.

Samkvæmt 112. gr. b laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, varðar það sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að stunda starfsleyfisskylda starfsemi án starfsleyfis. Mat ráðuneytisins er að hið sama skuli gilda um miðlæga mótaðila og t.d. banka og verðbréfafyrirtæki. Enda þótt nefndin leggi ekki til breytingu á þessu ákvæði er tilefni til þess að fram fari almenn athugun á refsiheimildum við brotum í fjármálastarfsemi, þar á meðal brotum á borð við það að stunda starfsemi á fjármálamarkaði án tilskilinna leyfa. Því beinir nefndin því til ráðuneytisins að það láti framkvæma slíka athugun þar sem kannað er hverjir séu refsirammar fyrir sambærileg brot, m.a. á Norðurlöndum og víðar í Evrópu. Ráðuneytið er beðið um að halda nefndinni upplýstri um framkvæmd þeirrar athugunar.

Síðan varð nokkur umræða um afturvirka upplýsingaskyldu sem leggjast mun á fjármálafyrirtæki við gildistöku frumvarpsins verði það að lögum. Það hefur komið fram að erfitt getur reynst að uppfylla skylduna afturvirkt, t.d. þar sem afleiðusamningar skulu samkvæmt reglugerðinni vera númeraðir og kóðaðir á tiltekinn hátt sem ekki hefur verið viðhafður hér á landi hingað til. Nefndin hefur verið upplýst um að ráðuneytið og Fjármálaeftirlitið vinni í sameiningu að því að leysa það vandamál með sem minnst íþyngjandi hætti fyrir markaðsaðila. Nefndin hvetur til að þeirri vinnu verði hraðað og samráð haft við viðeigandi hagsmunaaðila. Af þessum sökum leggur nefndin ekki til neinar breytingar að þessu leyti.

Eins og ég sagði áðan fylgja líka með breytingartillögur nefndarinnar sem ég vísa til í nefndarálitinu. Þær eru allar tæknilegs eðlis vegna samræmingar.

Undir þetta nefndarálit rita Óli Björn Kárason, formaður nefndarinnar og framsögumaður, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Oddný G. Harðardóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Una Hildardóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir.