148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[13:49]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hér liggur fyrir nefndarálit atvinnuveganefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Málið var rætt í nefndinni milli 2. og 3. umr. Nefndin leggur til breytingu við frumvarpið í þá veru að andvirði selds ufsa skiptist milli útgerðar og sjóðs samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla í hlutfallinu 80/20. Einnig leggur nefndin til að veita skuli útgerð leyfi á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips var skráð 23. apríl 2018, en þó geti útgerð valið sér það svæði sem hún hefur stundað veiðar frá í tvö af sl. þremur árum óháð heimilisfesti í dag. Nefndin leggur áherslu á að um tilraun til eins árs sé að ræða sem verður metin með tilliti til grunnmarkmiða strandveiðikerfisins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við 1. gr.

a. Við 2. efnismgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Að hámarksaflamagn ufsa strandveiðitímabilið 2018 sé 700 tonn.

b. Í stað „50%“ í síðari málslið 3. efnismgr. komi: 80%.

c. Við bætist nýr liður, svohljóðandi: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:

Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 6. gr. a skulu eftirfarandi ákvæði gilda um veitingu strandveiðileyfa eftir landsvæðum á árinu 2018. Veita skal útgerð leyfi á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips var skráð 23. apríl 2018, en þó má útgerð velja sér það svæði sem hún hefur stundað veiðar frá í tvö ár af sl. þremur árum óháð heimilisfesti í dag.

Undir þetta nefndarálit ritar Smári McCarthy, með fyrirvara, Sigurður Páll Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Þorgerður K. Gunnarsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu. Aðrir nefndarmenn eru sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Njáll Trausti Friðbertsson, Inga Sæland, Guðjón S. Brjánsson og Sigurður Páll Jónsson.

Þarna hafa verið gerðar tillögur um ákveðnar breytingar sem ég tel að ættu að mæta þeim sjónarmiðum sem hafa komið fram við vinnslu málsins. Það hefur verið ákveðinn ótti við að skip myndu færa sig sérstaklega yfir á A-svæði og þess vegna er þessi tillaga um að það sé miðað við heimilisfesti útgerðar 23. apríl en þá opnaði Fiskistofa á skráningu inn í strandveiðikerfið. Við þekkjum það að vítt og breitt um landið eru veikar sjávarbyggðir sem hafa fengið til sín strandveiðibáta á sumrin sem hafa haldið tryggð við þessar byggðir og komið þó að heimilisfesti sé önnur. Þetta eru byggðir eins og Norðurfjörður á Ströndum, Bakkafjörður, Borgarfjörður eystri og Raufarhöfn. Þangað hafa menn farið sem hafa átt tengingu við þessa staði og hefur skipt miklu máli fyrir þessa staði að efla umsýslu í kringum strandveiðar. Viðkomandi sveitarfélög hafa haft tekjur og þeir sem búa þar hafa notið góðs af því að þessir aðilar hafa komið. Þess vegna setjum við þetta inn, að ef horft er á tvö ár af þremur sé það óháð heimilisfesti í dag þegar þeir hafa stundað strandveiðar frá viðkomandi stöðum.

Varðandi ufsann sem er búið að fjalla þó nokkuð mikið um var búið að samþykkja að taka hann út úr heildaraflamagni sem er til strandveiða. Það gerir það heildaraflamagn enn verðmætara. Ufsi hefur verið á frekar lágu verði undanfarið og ekki náðst sá afli sem hefur mátt veiða undanfarin ár, hann hefur brunnið inni á milli áramóta. Áður var tillaga um að verðmæti þess afla myndu skiptast til helminga á milli sjóðs Hafrannsóknastofnunarinnar og útgerðaraðilans. Þegar í ljós kom að verð fyrir ufsa væri ansi lágt var ákveðið að hafa þessi hlutföll öðruvísi, að 80% færu til útgerðaraðilans en 20% til þessa sjóðs Hafrannsóknastofnunarinnar. Eftir sem áður skiptir mjög miklu að ufsinn sé ekki talinn inni í því magni sem viðkomandi útgerð má veiða að hámarki á hverjum degi, 650 kíló af slægðum afla.

Ég tel búið að vinna þetta mál þvert á pólitík það lengi að við séum komin á endastað. Aldrei verður hægt að gera öllum fullkomlega til hæfis í þessum efnum en ég tel að nefndinni og þeim sem að málinu hafa komið hafi tekist að gera jákvæðar breytingar á málinu. Síðan tökum við það upp í haust og horfum til þessa árangurs og þess sem hefur komið út úr þessari tilraun í sumar til að byggja upp strandveiðikerfið til langrar framtíðar.