148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[14:50]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Vandinn við þessar tölur er sá að það er algjörlega óljóst hvaðan þær koma. Það er vissulega rétt að 5.000 er helmingurinn af 10.000, en það breytir því samt ekki að tölurnar 5.000 og 10.000 eru rangar. Nú er gert ráð fyrir því að heildarpotturinn hljóði upp á rétt rúmlega 11.000 tonn, að því gefnu að það gangi eftir að í reglugerð færist 1.000 tonn yfir frá línuívilnuninni sem ég geri ráð fyrir að standist þar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra er búinn að lofa því.

Eftir stendur að jafnvel þótt maður geri ráð fyrir einhverri svakalegri aukningu verðum við að horfa á hvernig þróunin hefur verið í gegnum tíðina. Kannski er ein helsta ástæðan fyrir því að afstaða mín mildaðist gagnvart þessu máli sú — ég er með tölfræðina fyrir framan mig. Ég er búinn að sitja frekar þreyttur að reikna og get ekki séð að þessi dómsdagsspá standist. Ef þessi tala, 5.000 tonn, kemur úr einhverjum eðlilegum útreikningum eða spám væri gaman að heyra hvernig þær spár komu til, hver reiknaði þær og á hvaða forsendum, vegna þess að þetta gætu vel verið einhverjar nýjar tölur fyrir mér.

Kannski er þetta rétt, en forsendur þurfa að fylgja. Þær tölur sem ég hef undir höndum eru fengnar frá Landssambandi smábátasjómanna ásamt Fiskistofu þannig að ég tel þær hljóta að vera nokkuð réttar. Kannski eru samt til betri spár.