148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga.

113. mál
[17:19]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál en tek undir það sem hér hefur komið fram. Ég á sæti í allsherjar- og menntamálanefnd og hef tekið þátt í því starfi sem þar hefur farið fram um þetta mál og er með á því. Þetta er mikilsvert framfaramál og ég treysti því að sú nefnd sem tekur til starfa undir forsæti Eiríks Jónssonar muni skila okkur áleiðis í átt að því að hér verði viðunandi lagaumhverfi um ærumeiðingar og meiðyrði. Svo hefur ekki verið hér á landi um langan aldur. Ég held að mikilvægt sé að muna að það er brýnt fyrir fólk að geta gætt réttar síns um eigin æru. Sérhver manneskja á sína mannhelgi og sæmd og á að geta varið mannhelgi sína og sæmd með einhverju móti. Við sjáum í elstu heimildum Íslandssögunnar alveg frá þjóðveldisöld hversu mikilvægt mönnum er orðspor sitt og hversu þungbært það er talið að verða fyrir níði. Níð var dauðasök, eins og við vitum, og þannig var það fram eftir öldum. Það er mikilvægt að halda því til haga að sæmdin er hverjum manni mjög dýrmæt.

Þetta eru viss réttindi, mannhelgi. Hins vegar eru önnur réttindi sem þarna rekast á, þau réttindi að fá að segja hug sinn, fá að segja sína skoðun jafnvel þó að hún kunni að koma illa við orðspor annarrar manneskju. Það eru líka þau réttindi að fá að segja fréttir af því sem kann að koma einhverjum illa. Það eru réttindi að fá að reka fjölmiðla þannig að rekstrarumhverfi þeirra sé skaplegt. Það er mjög mikilvægt að tjáningarfrelsið í landinu sé varið. Það hefur verið misbrestur á því í gegnum tíðina, eins og við þekkjum, og hafa fallið um það dómar. Hér hefur verið leitað til Mannréttindadómstólsins og Íslendingar hafa hvað eftir annað fengið á sig dóma frá Evrópu þar sem Hæstiréttur Íslands hefur fengið hálfgerðar snuprur fyrir dóma sína þar sem hugmyndin um æru, sæmd, er fortakslaust tekin fram yfir réttinn til tjáningar og þau mannréttindi að fá að segja hug sinn.

Þetta hefur bitnað á fjölmiðlum og rekstrarumhverfi þeirra en það sem meira er og jafnvel enn verra er að þetta hefur líka bitnað á einstökum blaðamönnum. Þeir hafa mátt þola þungar fjársektir og mikinn kostnað fyrir utan þau óþægindi sem hverri manneskju hlýtur að vera í því að þurfa að verja sig fyrir dómstólum fyrir það eitt að skrifa niður frásögn af starfsemi sem viðkomandi blaðamaður veit ekki betur en að sé sönn og rétt.

Það er mikilvægt að fá umbætur á þessari löggjöf. Eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson nefndi í ræðu sinni er skemmtilegt að Eiríkur Jónsson skuli verða til þess að stýra því starfi vegna þess að þegar hann kom inn á þing sem varaþingmaður Samfylkingarinnar á sínum tíma lagði hann einmitt fram frumvarp um þetta efni.

Æran er hverjum manni mikilvæg og kannski er fátt mikilvægara. Ég held samt að maður sæki ekki æru sína til dómstóla, maður fær hana í lífinu með verkum sínum og framgöngu.