148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[17:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið er með frumvarpi þessu verið að uppfylla skilyrði laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, þannig að ákvæði um markaðar tekjur ríkissjóðs verði felld brott. Markmiðið er í sjálfu sér jákvætt, eins og t.d. að frumvarp til lokafjárlaga kemur til með að heyra sögunni til. Einnig einfaldar frumvarpið fjárlagagerð. Það er jákvætt. Síðan á eftir að koma í ljós hvort það treysti fjárstjórnarvald Alþingis.

Sambærilegt frumvarp var lagt fram af meiri hluta fjárlaganefndar á 143. löggjafarþingi 2013–2014 en hlaut ekki afgreiðslu. Ýmsar athugasemdir komu fram og hefur verið tekið tillit til þeirra í meginatriðum. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að með lögum um opinber fjármál var tekið upp breytt fyrirkomulag, þ.e. rammastýringar á útgjöldum ríkisins, sem felur m.a. í sér að horfið er frá því að fjármagna verkefni með beinni mörkun skatttekna og að reikningsskilum ríkisins verði breytt í það horf að skatttekjur færast hjá ríkissjóði en ekki hjá einstökum ríkisaðilum.

Ég er þeirrar skoðunar að undirbúningur málsins af hálfu efnahags- og fjármálaráðuneytisins hefði mátt vera betri og víðtækara samráð hefði átt að viðhafa við þá sem málið varðar. Deili ég þar skoðun með hv. þm. Ólafi Ísleifssyni, ágætum nefndarmanni í fjárlaganefnd.

Ég vil aðeins staldra við umsögn Ríkisendurskoðunar um frumvarpið. Hv. þm. Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, kom einnig inn á hana í framsögu sinni. Ríkisendurskoðun hefur ítrekað fundið að fyrirkomulagi markaðra tekna og uppgjöri þeirra, sérstaklega varðandi það vandamál sem fylgir bindingu þeirra. Annars vegar er um að ræða meðferð og skilgreiningu á tryggingagjaldi og hins vegar nokkrum ákvæðum í frumvarpinu sem virðast ganga gegn meginstefnu þess. Í nokkrum tilfellum virðist sem verið sé að afnema mörkun tekna hjá einstökum aðilum en þegar grannt er skoðað kemur í ljós að svo er ekki. Á það við um Íslandsstofu, Fjármálaeftirlitið og Ábyrgðasjóð launa, og hafa fleiri þingmenn komið inn á það í þessari umræðu.

Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að í frumvarpinu sé þeirri spurningu ekki svarað hvernig fara skuli með ógreiddar eftirstöðvar markaðra tekna sem þegar hafa verið færðar í bókhald stofnana nú þegar mörkun tekna fellur niður. Það er heldur ekki getið um hvernig fara skuli með tekjur frá samþykkt laga um opinber fjármál og til samþykktar þessa frumvarps.

Mikilvægt er að hér sé skýrt kveðið á um hvernig farið skuli með tekjur rétthafa fram að gildistökudegi samkvæmt ákvæði þar um í frumvarpinu.

Mig langar einnig aðeins að staldra við málefni umboðsmanns skuldara í þessu sambandi. Umboðsmaður skuldara sinnir mikilvægum málaflokki og er alfarið rekinn með sértekjum. Samkvæmt núgildandi lögum um umboðsmann skuldara, nr. 100/2010, og lögum um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, nr. 166/2011, standa fjármálafyrirtæki, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og vátryggingafélög, og fleiri, straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara með greiðslu sérstaks gjalds. Gjaldið rennur til reksturs embættisins og greiðslu fjárhagsaðstoðar, til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að þessu verði breytt og að gjaldið renni í ríkissjóð. Samkvæmt lögum nr. 166/2011 skal umboðsmaður skuldara gefa ráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta almanaksárs fyrir 1. júlí ár hvert. Með skýrslunni skal fylgja álit samráðsnefndar gjaldskyldra aðila. Lögin veita ekkert svigrúm til að breyta gjaldtöku næsta árs verði gerð krafa um lækkun rekstrarkostnaðar þegar fjárlagavinna hvers árs fer fram.

Ef horfið er frá því að umrædd gjaldtaka sé eyrnamerkt rekstrarkostnaði embættisins geta gjaldskyldir aðilar ekki lagt traust á að álögð gjöld nemi þeirri fjárveitingu sem embættinu er ætluð með fjárlögum. Þar sem fjárveiting er háð fjárstjórnarvaldi Alþingis er ekki tryggt að embættið fái greiddan þann rekstrarkostnað sem áætlaður er samkvæmt framangreindri skýrslu og var grundvöllur gjaldtökunnar. Væri þannig gengið gegn því sem lagt var upp með í lögum nr. 166/2011 um að samræmi sé á milli gjaldtöku og rekstrarkostnaðar embættisins. Það verður að líta til þess að umrædd gjaldtaka er í beinu sambandi við fjárþörf stofnunarinnar. Tekjurnar eru þannig ekki breytilegar í takt við hagsveiflur, eftirspurn eða aðra hagræna þætti, samanber t.d. tekjur af bensíngjaldi og framlög til framkvæmda í vegamálum.

Með tilliti til framangreinds má telja það ákveðinn forsendubrest ef framlög til umboðsmanns skuldara yrðu lægri en sem næmi gjaldtöku samkvæmt lögum nr. 166/2011. Sterk rök mæla með því að í breytingarákvæði í lögum nr. 166/2011 kveði á um lögbundið framlag til umboðsmanns skuldara. Í því sambandi má benda á að Fjármálaeftirlitið kom með athugasemdir við sambærilegt frumvarp sem flutt var á 143. löggjafarþingi, eins og ég nefndi hér fyrr. Þar var komið til móts við þær áhyggjur með þeim hætti að í frumvarpinu er kveðið á um lögbundið framlag úr ríkissjóði til Fjármálaeftirlitsins sem tæki mið af áætluðum tekjum af eftirlitsgjaldi á viðkomandi ári. Líkt og að framan greinir er gjaldskylda samkvæmt lögum nr. 166/2011 byggð á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999. Umfang starfsemi umboðsmanns skuldara er að meginstefnu til bundið við fjölda þeirra einstaklinga sem leita til embættisins hverju sinni og hefur því stofnunin ákveðna sérstöðu hvað þetta varðar.

Þar sem meginhlutverk embættisins er að aðstoða einstaklinga í greiðsluerfiðleikum má segja að stofnunin sé að ákveðnu leyti að veita viðskiptavinum gjaldskyldra aðila þjónustu vegna þeirra eigin lánastarfsemi, þrátt fyrir að þjónustan teljist ekki sérgreind gagnvart gjaldendum. Það er því mikilvægt að umboðsmaður skuldara hafi sveigjanleika í rekstri og geti brugðist skjótt við ef umsóknarfjöldi eykst eða minnkar. Með tilliti til þess er mikilvægt að tryggt sé í lögum að framlag ríkissjóðs til embættisins skuli að lágmarki nema áætluðum tekjum af álögðum gjöldum á gjaldskylda aðila samkvæmt lögum nr. 166/2011.

Frú forseti. Ég vil að lokum aðeins nefna mikilvæga stofnun en það er Fjármálaeftirlitið. Mjög mikilvægt er að tryggja sjálfstæði þess gagnvart hinu pólitíska valdi í samræmi við alþjóðlega viðurkennd sjónarmið. Sú hætta er fyrir hendi að frumvarpið geti veikt sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins gagnvart hinu pólitíska og efnahagslega valdi sem síðan getur dregið úr skilvirkni opinbers fjármálaeftirlits og trausti á íslenskum fjármálamarkaði.

Það er rétt að samstaða var í nefndinni um að leggja frumvarpið fram með þessum hætti. Sá sem hér stendur gerði það í trausti þess að þetta sé skref sem við verðum að stíga og þær breytingar sem nefndin leggur til komi til móts við þær áhyggjur hagsmunaaðila sem hafa komið fram í meðferð málsins.