148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[17:15]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir þetta áhugaverða innlegg. Ég segi ekki að við séum stödd alveg í myrkri með þetta mál. En það hvílir ákveðinn skuggi yfir því vegna þess að eins og komið hefur fram skortir þarna á að mínum dómi, og hefur komið fram hjá fleiri þingmönnum í þessari umræðu, að efnahags- og fjármálaráðuneytið stæði betur að undirbúningi. Það kom líka fram í umsagnarferlum, eins og ég greindi hér frá áðan í ræðu minni.

Vissulega er þetta ákveðin glíma, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Við þurfum hins vegar að stíga þetta skref, og það er mín skoðun, vegna þess að það er ákveðið skref í rétta átt. Búið er að horfa til athugasemda og við höfum staðið ágætlega saman í nefndinni í málinu. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. formanni nefndarinnar og hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir að stýra þessari vinnu ágætlega og taka vel undir þá gagnrýni sem komið hefur fram og það sem hefði mátt betur fara.

Í ljósi alls þessa styð ég að við stígum þetta skref í því trausti að þær breytingar sem nefndin leggur til muni skipta miklu máli og að komið verði til móts við þær áhyggjur sem fram hafa komið.