148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[20:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er fullkomlega sammála og ég kom aðeins inn á þetta í ræðu minni áðan, þessa skemmdarstarfsemi, það er ekki hægt að kalla það annað, sem felst í því þegar umframframleiðslu er hrúgað inn á markað, hent inn á markaðinn á undirverði til þess að losa sig við vörurnar. Þetta viljum við reyndar forðast á Íslandi líka, að Evrópusambandið hrúgi inn umframframleiðslu á okkar markað og eyðileggi hann. Þó að okkur hafi gengið vel að byggja upp okkar verðmætasköpun og framleiðslu viljum við ekki eiga á hættu að rústa því sem byggt hefur verið upp um aldir. Þetta er áhyggjuefni, ég tek undir það, og ótrúlegt hvað Evrópusambandsríki mörg hafa gengið langt í þessum efnum. Líka reyndar í sjávarútvegi þar sem floti Evrópusambandsins hefur stundað rányrkju víða við fátæk ríki og jafnvel eyðilagt heilu fiskstofnana.

Ég vil klára það sem ég ætlaði að nefna áðan. Það er auðvitað eðlilegt að það séu greidd lægri laun, ég skal viðurkenna það, í fátækari ríkjum, jafnvel nauðsynlegt til að framleiðslan þaðan geti verið samkeppnishæf og menn byggt sig upp. Ég nefni sem dæmi Japan sem náði alveg ótrúlegum árangri í að byggja upp það iðn- og tækniveldi sem landið nú er, hafandi haft samkeppnisforskot vegna lægri launa við framleiðslu framan af, en þróaði það svo yfir í aukin gæði í framleiðslunni sem þýddi að Japanar gátu smátt og smátt hækkað launin, aukið velmegun, og eru nú samkeppnishæfir við heiminn á grundvelli gæða framleiðslunnar, tækniþekkingar og framfara í iðnaði. Þetta er auðvitað sú þróun sem við viljum sjá í fátækari ríkjum, að þau geti skref fyrir skref, smátt og smátt, byggt sig upp.