148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[21:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Já, það horfir auðvitað talsvert öðruvísi við bara af þeirri grundvallarástæðu að við erum annars vegar að tala um þessi fátækustu ríki sem byggja kannski þorra landsframleiðslu sinnar á matvælaframleiðslu meðan okkar matvælaframleiðsla, landbúnaður sem slíkur, er talinn kannski í einhverjum prósentum af landsframleiðslu. Þó svo að landbúnaður sé mikilvægur hér á landi og verði ekki gert lítið úr mikilvægi hans, ekki hvað síst fyrir byggðaþróun, og við viljum einmitt styðja við og efla landbúnað, er staða okkar allt önnur til þess að takast á við slíkan innflutning, sem oftast er á grundvelli gagnkvæmra samninga. Við erum þá að reyna að tryggja á móti landbúnaði okkar eða sjávarútvegi markaðsaðgang á sem hagstæðustum kjörum inn á erlenda markaði á móti. Við erum auðvitað í alþjóðasamstarfi í þessu samhengi, sjálfviljug til þeirra samninga að opna fyrir markaðsaðgang hingað á móti markaðsaðgengi afurða okkar á erlenda markaði.

Mér finnst vera grundvallarmunur á stöðu okkar á móti þessum fátækustu ríkjum sem byggja lífsviðurværi sitt að þorra til á landbúnaðarframleiðslu sinni. Þannig að já, ég tel þarna verulegan mun á.