148. löggjafarþing — 70. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get huggað hv. þingmann með því að það hefur ekki verið einfalt að vera í stjórnarandstöðu með þessa sundurlyndu ríkisstjórn, við skulum segja í samstarfi. (Gripið fram í: … farinn að hljóma eins og sósíalisti. ) Hv. þm. Óli Björn Kárason kom með sjónarmiðið sem ég hefði ekki þorað að biðja hann um að draga inn í umræðuna, en mér finnst verst hvað ég hef stuttan tíma. En það er auðvitað þannig að ef menn vilja taka kostnað af til að mynda umferðarslysum inn í þessa púllíu og segja: Þeir sem aka um vegina verða að borga fyrir slysin og borga fyrir sjúkrahúsþjónustuna, þá verðum við í fyrsta lagi að yfirfæra það á fleiri þætti. Eigum við að fara að rukka íþróttamenn með þeim hætti? Hvernig eigum við að rukka þá sem slasast í hjólreiðaslysum?

Það er líka annað sem verður að koma inn í jöfnuna, það er auðvitað að öll þessi umferð er einhverra hluta vegna. Menn eru að vinna. Menn eru að skapa framlegð í verkefnum. Menn eru að fara í heimsókn til afa og ömmu. Það er eitthvert markmið í gangi. Ef menn ætla að útvíkka jöfnuna og fara að taka sjúkrahúskostnað og annan samfélagslegan kostnað inn í þetta, þá verður líka að taka þessar samfélagslegu (Forseti hringir.) tekjur og þá framlegð sem umferðin og ferðir frá A til B skapa. Því iðulega (Forseti hringir.) er tilefnið eitthvert. Þótt ég vildi auðvitað miklu frekar fara á rúntinn í einhverju tilefnisleysi með hv. þingmanni (Gripið fram í: Og fá okkur ís?) og fá okkur ís.