148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[10:31]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum nú þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 á öðrum degi. Í gær fengum við að heyra ólík sjónarmið meiri hluta og minni hluta þar sem ýmist var staðhæft að um heimsmet í viðsnúningi væri að ræða og markvissa uppbyggingu eða svik við kjósendur um uppbyggingu velferðarkerfisins og allra innviða samfélagsins.

Nýtt verklag við áætlanagerð er í deiglunni, við erum í henni miðri. Þetta er í annað sinn sem Alþingi vinnur að fjármálastefnu og fjármálaáætlun í samræmi við lög um opinber fjármál, nr. 123/2015. Við erum í lærdóms- og reynsluferli og talsvert vantar enn á að ný hugmyndafræði hafi skilað sér alla leið sem rauður þráður frá upphafi til enda, en að áliti þess sem hér stendur miðar okkur þó áfram.

Ég vil sem velferðarnefndarmaður fá að hlaupa á hundavaði, eins og sagt er, yfir helstu atriði sem heyra undir nefndina í ljósi þess að ég hef mjög knappan tíma.

Þess eru engin merki að áherslumál sjúkrahúsanna séu viðurkennd í þessari fjármálaáætlun. Dæmi um það er ófjármögnuð þróun eftirspurnar. Hvorki Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri né öðrum heilbrigðisstofnunum er því gert kleift að bregðast við aðsteðjandi verkefnum og stöðugt vaxandi kröfum og regluverki, sem dæmi ábendingum eftirlitsaðila, embættis landlæknis, Lyfjastofnunar og Ríkisendurskoðunar, um veikleika gæðatryggðu starfi og öryggisógnir. Mikilvægu vísindastarfi sem m.a. getur laðað að hæft starfsfólk er lítill gaumur gefinn. Sérstaklega á það við um Landspítala – háskólasjúkrahús, lærdómssetrið, mekka heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Þá er einnig eðlilegt að benda á ákvörðun stjórnvalda um jafnlaunavottun, innleiðingu nýs áætlanakerfis, innleiðingu nýrra persónuverndarlaga og innleiðingu ESB-tilskipunar vegna falsaðra lyfja. Það eru dæmi um ákvarðanir stjórnvalda sem leiða til kostnaðar á stofnunum hins opinbera án þess að gert sé ráð fyrir því í fjárveitingum.

Niðurstaðan er sú að framsetning varðandi sjúkrahúsþjónustuna er ófullnægjandi og það sem séð verður er stórlega vanáætlað. Það sem blasir við heilbrigðisstofnunum, sérstaklega á sjúkrasviðum stofnana, er samdráttur og áframhaldandi erfiðleikar í rekstri og allri starfsemi, undanhald en ekki uppbygging.

Í heilsugæslunni hefur breytt rekstrarfyrirkomulag og nýtt greiðslukerfi haft jákvæð áhrif að því er virðist á höfuðborgarsvæðinu. Í sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins er heilsugæslan, þessi yfirlýsti fyrsti viðkomustaður sjúklinga, brotin og býr við manneklu og fjársvelti.

Engin merki eru um viðsnúning þessum stofnunum til bjargar. Það er mat stjórnenda að í fjármálaáætlun vanti a.m.k. 1.500 millj. kr. til að hægt verði að standa við yfirlýsingar um viðsnúning og uppbyggingu heilsugæslunnar á tímabilinu. Sérfræðiþjónusta, einkum sérgreinalækna þjónustunnar, og samskipti Sjúkratrygginga Íslands við fagstéttir á þessu sviði, var harðlega gagnrýnd í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar. Um það verður ekki fjallað frekar hér en bent á ágæta skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Fjallað er um fjarheilbrigðisþjónustu með almennum hætti í fjármálaáætlun en ekki er ljóst hvernig sú þjónusta verður skipulögð, starfrækt og hvaða þörfum sú tækni á að þjóna og hvernig. Í tillögu að byggðaáætlun er drepið á þennan þátt og þar eru eyrnamerktir peningar í verkefnið og þar eru spennandi tímar fram undan á því sviði.

Sjúkraflutningar eru skilgreindir sem hluti af grunnþjónustu heilsugæslunnar. Um rekstur bifreiða, eignarhald búnaðar og innheimtu hefur Rauði kross Íslands haft með höndum í 70 ár, allt frá því að skipulagðir sjúkraflutningar hófust á Íslandi. Núverandi heilbrigðisráðherra hefur kynnt að ekki verði samið lengur við sömu aðila. Það er kynnt án þess að gerð hafi verið úttekt eða ábatagreining sem lýtur að þeirri breytingu. Gera má fastlega ráð fyrir að nýir rekstraraðilar muni ekki una því óbreytta umhverfi sem Rauði kross Íslands hefur byggt þjónustu sína á. Söguleg tíðindi gætu því orðið ef sjúkraflutningar í landinu yrðu framseldir, hugsanlega til einkaaðila, í tíð núverandi heilbrigðisráðherra með þeim aukakostnaði sem því kann væntanlega að fylgja. Engar upplýsingar er að finna í fjármálaáætlun um þau atriði.

Hagræðing í heilbrigðiskerfinu hefur á undanförnum árum valdið árekstrum milli ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin reka um 20 hjúkrunarheimili á daggjöldum frá ríkinu samkvæmt samningum. Rammasamningur milli hjúkrunarheimila og ríkisins var gerður í fyrra, sem fól m.a. í sér nokkra hækkun daggjalda. Engu að síður greiða mörg sveitarfélög umtalsverða fjármuni með þessum rekstri, alls um 1 milljarð kr., að því er útreikningar segja, á hverju ári. Fjármálaáætlun tekur ekki á þessum brýna vanda.

Ríkisstjórnin áformar að fjölga hjúkrunarrýmum um 550 á gildistíma áætlunarinnar. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögu að fjármálaáætlun eru þessi rými ekki fjármögnuð nema að takmörkuðu leyti og því ljóst að rýmum mun ekki fjölga að óbreyttu um nema kannski 150 á tímabilinu nema því aðeins að aukið fé komi inn til rekstrar. Það er því verið að slá ryki í augu almennings. Þar fyrir utan er orðin knýjandi þörf á að endurbæta eldri rými og breyta í samræmi við breyttar og auknar öryggiskröfur og byggingarreglugerðir. Ekki liggur fyrir hvort raunhæf áætlun er til um þann þátt en upphæðirnar sem skilgreindar eru í þau verkefni eru fjarri öllu raunsæi.

Kostnaður vegna almennra lyfja hefur að mestu staðið í stað en útgjöld vegna nýrra lyfja vaxa hratt og svo mun verða áfram, enda hefur reynst nauðsynlegt að innleiða ný lyf í auknum mæli síðustu tvö árin. Mikil áskorun og jafnvægislist er í því fólgin að skapa sátt um innleiðingu nýrra lyfja og brúa bilið á milli væntinga, vísindalegrar framþróunar og fjárheimilda á tímabilinu. Án efa eru þær upphæðir sem ætlað er að verja til lyfjakaupa því vanáætlaðar.

Hjálpartæki eru stöðugt að verða mikilvægari, ekki síst í þeirri umræðu sem sífellt verður fyrirferðarmeiri, að einstaklingar búi á eigin heimili og á sínum forsendum lengur en tíðkast hefur. Það á ekki síst við um fatlaða einstaklinga sem nú geta notið NPA-samninga og þurfa viðhlítandi stuðningsúrræði.

Í fjármálaáætlun 2019–2023 kemur ekki fram hvenær afnema eigi svokallaðar krónu á móti krónu skerðingar sem örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar bíða enn eftir og sem skilið hafa þennan hóp eftir í fátæktargildru.

Ekki er að sjá í fjármálaáætlun að ný hugsun og ný viðhorf hafi fengið að skjóta rótum varðandi valkosti í búsetuúrræðum fyrir aldraða og til þess að lífsgæði þeirra megi verða sem mest. Ekki verður greint að hugað verði að átaki til þess að gera öldruðum mögulegt í verki að búa á eigin heimili lengur en tíðkast hefur, að eiga fleiri valkosti en að flytjast á stofnun, með eða án maka. Það þarf að gera með fræðslu, fjármagni til aukinna verkefna utan spítala og langdvalarstofnana, t.d. heimaþjónustu, heimahjúkrun, sjúkra- og iðjuþjálfun í heimahúsum, uppsetningu hjálpartækja, hagnýtingu almennt á sviði heilbrigðistækni og fyrirgreiðslu svo hægt sé að flytjast í hentugt húsnæði ef svo ber undir. Að lágmarki þarf að verja myndarlegri upphæð, kannski 500 milljónum, í það verkefni í tilraunaskyni til þess að sýna að hér eigi að fara í nýja stefnu.

Í tillögu þessari að fjármálaáætlun er fjallað um aukið framlag til Fæðingarorlofssjóðs til að hækka hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi í 600.000 kr. á mánuði. Þá segir að stefnt sé að lengingu fæðingarorlofs en ekki kemur fram hvenær lagt er til að það komi til framkvæmda. Tvö ár eru liðin frá því að starfshópur sem skipaður var af félags- og húsnæðismálaráðherra studdi í niðurstöðum sínum tillögu um hækkun hámarksgreiðslna í 600.000 kr. mánaðarlega. Uppreiknað er sú fjárhæð komin í 645.000 kr. á árinu 2018. Með fyrirliggjandi og óbreyttum áformum er talsvert dregið í land.

Stefna ríkisstjórnar næstu fimm ár um stuðning við barnafjölskyldur er í skötulíki og engin áform um að rétta hag þeirra með auknum barnabótum eða breytingum á skerðingarákvæðum.

Kaflinn um húsnæðismál er rýr og ber einkenni þess að gert er ráð fyrir að stefnan í húsnæðismálum bíði væntanlegra kjarasamninga.

Herra forseti. Í tillögu að fjármálaáætlun hafa tvö markmið verið skilgreind þegar kemur að jafnréttismálum, annars vegar að launajafnrétti verði náð og hins vegar að dregið verði markvisst úr ofbeldi í nánum samböndum, kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Því verði náð með auknu og efldu samstarfi milli menntakerfisins, réttarvörslukerfisins og velferðarkerfisins. Þegar kemur að útfærslu á því hvernig markmiðinu um að launajafnrétti verði náð er áherslan eingöngu á eftirfylgni jafnlaunastaðals sem felur í sér áherslu um að launamun innan vinnustaða verði útrýmt. Hagsmunasamtök launþega hafa endurtekið bent á að megináskorunin þegar kemur að launamun kynjanna sé mun fjölþættari og því þarf einnig að vinna í öðrum orsökum launamunar kynjanna.

Norrænir sérfræðingar í jafnréttismálum hafa ítrekað bent á að grípa verði til aðgerða til að ráðast að rótum hverrar ástæðu fyrir sig til að jafna megi stöðu kynjanna. Ekki er fjallað um nein af þessum atriðum í tillögunni og er brýnt að bæta úr því.

Nær engin umfjöllun er um aðgerðir í tengslum við #metoo-umræðuna í fjármálaáætluninni. Bent er á að kjarni þeirrar byltingar varði ofbeldi og áreitni gagnvart konum á vinnustöðum. Ríkisstjórnin hefur ekki tekið nein skref til að stuðla megi að því að útrýma þessum vanda á vinnustöðum, fyrir utan skipan starfshóps sem meta á umfang hans.

Herra forseti. Af framansögðu má ljóst vera að í herbúðum jafnaðarmanna ríkir hvorki gleði né fögnuður yfir þeirri sýn til næstu fimm ára sem núverandi ríkisstjórn birtir okkur. Það á við um megináherslur, bæði hvað varðar tekjuöflun og ráðstöfun sameiginlegra tekna og svo innri áherslur. Því kemur ekki á óvart það mat þingflokks Samfylkingarinnar að fjármálaáætlun meiri hlutans byggi á óraunhæfum forsendum, sé pólitísk tálsýn og muni ýta undir frekari ójöfnuð í samfélaginu, algjörlega óviðunandi kjör og aðbúnað ákveðinna hópa þegnanna. Þetta er sorglegt og vansæmd fyrir gnægtasamfélagið Ísland.