148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:52]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í 100 ára sögu fullveldisins höfum við sprengt af okkur vel á annan tug mismunandi leiða í peningastjórn til að tryggja hér stöðugleika og lágt vaxtastig. Þrátt fyrir háværa gagnrýni, þrátt fyrir að tilgangur laga um opinber fjármál sé einmitt að efla þátt ríkisfjármála í hagstjórn hér á landi, fellur þessi ríkisstjórn kirfilega á því prófi.

Hér er enn og aftur lagt upp í þá vegferð að stórauka útgjöld á hápunkti þenslu. Reikningurinn verður sendur almenningi í landinu í formi hærra vaxtastigs en ella með tugmilljarða, jafnvel hundruð milljarða, kostnaði. Viðreisn mun greiða atkvæði gegn þessari fjármálaáætlun. Hún stenst ekki grundvallarviðmið laga um opinber fjármál varðandi sjálfbærni, varfærni, stöðugleika eða festu.