148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[15:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Bara örstutt um þetta. Töluverð umfjöllun átti sér stað um málið í allsherjar- og menntamálanefnd og ýmis sjónarmið komu fram. Ég held að flestum hafi verið ljóst að tillögutextinn eins og hann var upphaflega lagður fram væri þess eðlis að á honum þyrfti að gera breytingar. Atriði eins og það að sérstaklega væri mælt fyrir um að fjármálaráðherra skyldi beita sér fyrir sérstökum kjarasamningi til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að þarna og fleira þess háttar sem snýst ekki um markmið eða stefnu heldur orðalag og útfærslu. Þetta skilar sér í því að bæði meiri og minni hluti skila tillögum um breytingu á tillögutextanum sjálfum. Má deila um hversu mikill munur er á því. Það er áferðarmunur kannski.

Ég verð þó að segja að ég held að tillögutexti meiri hluta nefndarinnar, ríkisstjórnarflokkanna í nefndinni, sé aðgengilegri að því leyti að vísað er til þess sem raunverulega er hægt að gera með ályktun Alþingis, þ.e. að fela ráðherra að efna til viðræðna sem auðvitað þarf að ganga á eftir að verði gert, að rætt verði um markmiðið í þeim viðræðum, bæði við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélögin. Menn verða að hafa í huga, þegar verið er að ræða þessi mál, að vinnumarkaðurinn er ekki eitt. Hann er í grófum dráttum tvískiptur, annars vegar hinn opinberi vinnumarkaður og hins vegar einkamarkaðurinn. En báðir þessir markaðir eru brotnir upp í miklu fleiri búta og kjarasamningar sem verið er að gera í landinu eru mörg hundruð. Það eru mörg hundruð aðilar sem hafa sjálfstæðan samningsrétt. Menn verða aðeins að gæta þess þegar orðalag er valið í þessu sambandi að fela ekki einhverjum tilteknum ráðherra að leysa einhver mál sem þetta kallar á. Hins vegar er hægt að ætlast til þess, eins og gert er hér, að ráðherra beiti sér fyrir viðræðum með það að markmiði að ná fram þeim tilgangi sem þingsályktunartillagan snýst um.

Þarna eru tvö efnisatriði sem skipta máli og hægt verður að ganga á eftir að eitthvað verði gert í. Annars vegar er það hið nauðsynlega frumkvæði fjármálaráðherra í því að efna til viðræðna á áðurnefndum forsendum. Reyndar er vísað til þess í nefndaráliti meiri hlutans að þetta hljóti að koma til skoðunar í þeim viðræðum sem þegar hafa verið hafnar um jafnræði milli einkamarkaðarins og opinbera markaðarins. Þá hlýtur að vera undir að menn ræði stöðu mismunandi stétta sem í sumum tilvikum eru aðallega samansettar af konum og í öðrum tilvikum af körlum. Það hlýtur að koma til skoðunar í þessu sambandi. Það má kannski segja að með samþykkt þessarar tillögu sé verið að árétta að kynbundin sjónarmið komi þá frekar til skoðunar í þeim viðræðum. Hins vegar er líka mælt fyrir um að ráðist verði í greiningu á launakjörum á báðum þessum mörkuðum, opinbera markaðnum og einkamarkaðnum, út frá kynjasamsetningu starfsstéttanna. Auðvitað eru gögn af því tagi að einhverju leyti til. Það er ekki þannig að það sé allt uppfinning tillöguflytjenda eða þeirra sem um málið hafa vélað í allsherjar- og menntamálanefnd, en hins vegar er gagnlegt að það sem tekið hefur verið saman um þetta sé greint og þá hugsanlega upplýsinga aflað þar sem eyður eru.

Hvað sem því líður vildi ég koma hingað upp til að lýsa yfir stuðningi við að málið verði afgreitt með þeim hætt sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur til í ljósi þess að við hljótum að geta sameinast um þau markmið sem allur þessi tillöguflutningur stefnir að.