148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:19]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að vera langorð en mig langar að fagna því einmitt, eins og hv. framsögumaður, að við höfum náð sameiginlegri lendingu í þessu máli. Hér er um að ræða sérstaklega mikilvægt mál fyrir allt landið og mikilvægt að vel sé á því haldið. Í því samhengi vil ég einnig þakka gott samstarf við annað nefndarfólk og ég held að ekki halli á neinn þótt ég nefni sérstaklega hv. framsögumann málsins í því samhengi. Ég hefði mögulega viljað að enn lengra væri gengið í ákveðnum þáttum en tel að við komum þó til móts við stærstu athugasemdirnar og ég vona að þetta verði góður grunnur til að byggja á.

Þannig er til að mynda settur inn ákveðinn forgangshraði og tímasett markmið hvað varðar afhendingaröryggi sem ég held að sé mjög til bóta.

Eins og fram kemur í nefndarálitinu er lagt til að málið verði tekið til endurskoðunar á haustþingi 2019 og tíminn verði nýttur til að skoða sérstaklega jarðstrengina. Nefndin leggur einnig til að tíminn verði nýttur til að huga að því sem kom fram í umsögnum, ef maður skoðar flutning raforku milli landsvæða og að flutningsgeta milli landsvæða verði miðuð mögulega við ákveðið lágmarkshlutfall.

Ég tel mjög mikilvægt í því samhengi að nefndin haldi áfram sinni góðu vinnu og að ráðuneyti og ráðherra, Orkustofnun, Landsnet og aðrir hagsmunaaðilar taki höndum saman og vinni vel saman fram að þeim tíma til að tryggja sem besta stefnu stjórnvalda um uppbyggingu raforkukerfisins.