148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[16:38]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði sem ákveðið hefur verið að ræða saman og er það vel. Ég vil byrja á að þakka framsögumanni, hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, kærlega fyrir virkilega gott starf við að leiða saman ólík sjónarmið í þessu flókna, góða og þarfa máli. Ég vil líka byrja á að taka fram að ég er á báðum nefndarálitunum þótt mér hafi fundist mega ganga lengra, sérstaklega þegar kemur að frumvarpi til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Ég hefði viljað sjá að við myndum útvíkka þetta frumvarp til að ná yfir fleiri svokallaðar mismunabreytur og ég hefði viljað sjá okkur gera það strax.

Lendingin sem við náðum í málinu er hins vegar bráðabirgðaákvæðið, sem er ásættanlegt af minni hálfu. Ég mun sjálfsögðu styðja málið þar sem það eykur mannréttindi einstaklinga á Íslandi og kemur okkur nær því horfi sem flestar þær þjóðir sem við kjósum að bera okkur saman við eru í gagnvart banni við mismunun og almennri mismunalöggjöf, þ.e. banni við mismunun, og einhvers konar úrræði fyrir fólk sem er mismunað fyrir það eitt að tilheyra hópi án þess að geta nokkuð að því gert, eins og t.d. fyrir það að vera hinsegin eða með fötlun eða hvað það er. Þeir hópar hafa ekki notið viðeigandi verndar hingað til og þar af leiðandi er ég að sjálfsögðu fylgjandi því að frumvörpin tvö verði að lögum.

Ég verð samt að lýsa yfir vonbrigðum mínum með að mál sem hefur verið til vinnslu í ráðuneytinu í hartnær 15 ár sé ekki komið lengra en raun ber vitni á þessum tímapunkti, sér í lagi þar sem þetta frumvarp var lagt fram nokkurn veginn nákvæmlega eins í fyrra. Þá komu sömu sjónarmið fram um að útvíkka mætti frumvarpið til að ná yfir fleiri mismunabreytur. Eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir kom inn á áðan gerir bráðabirgðaákvæðið ráð fyrir því að ráðherra skuli, með leyfi forseta, „innan árs frá gildistöku laga þessara leggja fram á Alþingi frumvarp þar sem kveðið verði á um að lögunum verði breytt þannig að þau gildi ekki eingöngu um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna heldur einnig óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins utan vinnumarkaðar …“ Þetta er eitthvað sem ég tel að hefði getað verið komið í gagnið fyrir löngu. Eiginlega er það hrein hneisa að þetta sé ekki komið í lögin og sýnir kannski hversu aftarlega í forgangsröðinni mannréttindi þessara hópa eru og hafa verið. Við höfum staðið okkur mjög vel þegar kemur að jafnrétti kynjanna og erum mjög framarlega á því sviði og því ber að sjálfsögðu að fagna. Á móti kemur að varðandi réttindi fatlaðs fólks og réttindi hinsegin fólks erum við að dragast aftur úr öllum samanburðarríkjum okkar þar þegar kemur að því að vernda réttindi þeirra. Mér þykir virkilega hryggilegt, herra forseti, að við höfum ekki meiri áhuga á mannréttindum þessara hópa en raun ber vitni. Málið velkist um í 15 ár án þess einu sinni að komast til afgreiðslu og nú loks þegar það gerist og er löngu fyrirséð að talsvert fleiri hópar í samfélaginu verða fyrir mismunun er ekki hægt að lenda því þannig að þeir hópar verði teknir með strax, alveg frá byrjun.

Ég vil í lokin minna á nokkra hluti sem mér finnst við þurfa að laga. Það er ástæða fyrir því að ég tel mikilvægt að við setjum strax fleiri hópa inn í almenna mismunalöggjöf. Við horfum t.d. á lögræðislög þar sem enn er að finna víðtæka mismunun, beina lagalega mismunun, gegn fólki sem er með geðröskun og geðfötlun. Þar eru ýmis málsmeðferðarréttindi skert. Þar er heimild fyrir valdbeitingu án þess að nokkur málefnaleg sjónarmið þurfi að koma þar inn. Það er enginn neyðarréttur, ekkert svoleiðis, einfaldlega heimild til valdbeitingar á mjög veikum grunni. Það er bein mismunun gagnvart þeim hópi.

Ég minni á að lögum um fóstureyðingar hefur ekki enn þá verið breytt þannig að enn er það svo í lögunum að lögráðamaður getur neytt ólögráða konu til að fara í fóstureyðingu. Sú hrikalega tímaskekkja er enn í lögunum okkar.

Ég get líka talað um hvað það tók okkur langan tíma að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, alveg ótrúlega langan tíma, fleiri ár, vegna þess að réttindi þessara hópa sitja alltaf á hakanum og njóta ekki forgangs. Það er miður.

Ég nefni líka að enn er í gildi lögbann gegn miðlinum Stundinni sem sýnir að við berum ekki heldur sérlega mikla virðingu fyrir tjáningarfrelsinu.

Að lokum vil ég árétta að þótt mér finnist þetta mjög góð mál sem við erum að samþykkja og ég fagni þeim þá skulum við vinsamlegast láta þetta verða okkur hvatning til að gera betur í þeim málum og fylgjast betur með því að löggjafinn sinni (Forseti hringir.) öllum þegnum þessa lands, ekki aðeins sumum.