148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[16:44]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langaði til að hafa nokkur orð um þessi ágætu mál sem eru svo sem eðlilega rædd hér saman. Ég fagna því fyrst og fremst að við horfum fram á þetta skref stigið. Það er búið að hafa töluverðan aðdraganda og nokkrar atrennur hafa verið lagðar að því að koma þessum málum í gegn, annars vegar um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og hins vegar jafna meðferð á vinnumarkaði. Mig langar í örfáum orðum að beina sjónum að þessu síðarnefnda. Eins og segir í nefndaráliti taka lögin til jafnrar meðferðar einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu og hafa að markmiði að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þessum þáttum.

Svo ég beini sjónum að og tali aðeins um málefni hinsegin fólks höfum við Íslendingar verið haldin ákveðinni villu varðandi stöðu okkar þar vegna þess að við stöndum mjög vel félagslega þar hvað varðar félagsleg réttindi og erum almennt mjög langt á veg komin varðandi slík mál. Það er rétt og það er gott. En við höfum setið eftir þegar kemur að því að innleiða heildarlöggjöf um jafna stöðu á vinnumarkaði. Þetta er klárlega mjög stórt og mikilvægt skref í þá átt vegna þess að undir þessari regnhlíf — viðeigandi orð — eru líka réttindi hinsegin fólks. En það er fleira. Undanfarið þegar við höfum verið að ræða löggjöf til að jafna réttindi þessara hópa hefur annars vegar verið undir jöfn meðferð á vinnumarkaði, sem við ræðum hér, og hins vegar heildarlöggjöf um trans- og intersex-einstaklinga. Þar sitjum við verulega eftir og það réttlætir raunverulega ekkert að við skulum ekki vera löngu búin að koma þessum málum í rétt, eðlilegt og sanngjarnt horf sem sæmir okkar íslenska, góða samfélagi.

Undanfarið þegar þessi mál hafa verið rædd hefur nokkuð borið á því að stjórnvöld hafi talað um að við gerðum þetta í einum pakka. Við ætlum að taka frumvörpin um jafna meðferð með réttindum trans- og intersex-fólks. Það hefur einhvern veginn legið í loftinu, jafnvel verið orðað þannig að það sé gott að láta málefni trans- og intersex-fólks hanga á þessu stóra frumvarpi til að tryggja að það fari í gegn. En með því að leggja þessi mál fram á vorþingi en ekki málefni trans- og intersex-fólks — eins og mínar upplýsingar eru á að leggja það fram á haustþingi — er verið að skilja hér á milli. Nú er ég ekki að lýsa yfir neinu vantrausti á stjórnvöld hvað það varðar en ég vil árétta mikilvægi þess að enn og aftur verði staðan ekki sú að við slökum á eftir að hafa komið þessum stóru málum í gegn, verði þau að lögum hér. Að við treystum á að íslenskur almenningur í gegnum þau félagslegu réttindi og þá félagslegu stöðu sem við erum með í málefnum hinsegin fólks verði látið duga. Að menn finni sér e.t.v. einhver önnur „brýnni“ málefni og að það verði látið hrapa niður forgangslistann að koma lagalegum réttindum trans- og intersex-einstaklinga hið fyrsta í rétt horf vegna þess að verkefnin séu nú næg.

Það er þess vegna sem ég er upp að vissu marki óróleg yfir því að slitið skuli vera þarna á milli núna. Ég árétta að við tökum öll höndum saman og klárum þetta mál, setjum pressu á ef þarf og að málefni og réttindi trans- og intersex-fólks verði látin sæta forgangi þegar þing kemur saman í haust.