148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[21:01]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við erum að afgreiða stórmál, mjög mikilvægt mál sem hefði verið æskilegt og raunar nauðsynlegt að fá mun meiri tíma til að fjalla um. Það verður að lýsa þeirri skoðun sinni hér að hæstv. dómsmálaráðherra og ráðuneyti hans hefðu betur komið frumvarpinu frá sér fyrr til þess að það fengi vandaðri umfjöllun en gefinn er kostur á. Hins vegar er málið þess eðlis að við verðum að innleiða þessa nýju löggjöf. Það gerum við. Ég held að flestallir umsagnaraðilar séu sammála um að málið þoli ekki bið. Vegna þess lagði nefndin á sig mikla vinnu með dyggri aðstoð starfsmanna þingsins, nefndasviðsins, og höfunda frumvarpsins, sem voru duglegir við að aðstoða nefndina við að færa til betri vegar nokkur atriði í frumvarpinu. Ég held að því hafi tekist á ótrúlega stuttum tíma að sníða af agnúa og bæta frumvarpið frá því sem upphaflega var.

Frumvarpið felur í sér, ég vil leyfa mér að segja nánast byltingu á þessu sviði. Fjallað er um mikilvæg réttindi og tekur frumvarpið til mjög margra aðila í samfélaginu. Málið er í sjálfu sér mjög þarft og gott í alla enda og kanta því að við erum að tryggja og taka samræmda löggjöf sem tryggir persónuvernd betur en áður var og hvað er heimilt og hvað ekki í meðferð persónuupplýsinga.

Það er líka rétt að benda sérstaklega á að nefndin var mjög meðvituð um þann vanda sem hún stóð frammi fyrir. Það er kirfilega tekið fram í nefndarálitinu að nefndin telur sér hafa verið sniðinn býsna þröngur stakkur við að vinna þetta mál svo að sannur sómi væri að. Rétt er að ítreka enn og aftur gagnrýni á það hversu seint málið kom fram.

Það eru fjölmörg atriði í málinu sem hefðu svo sannarlega þurft lengri umræðu en ég held að þrátt fyrir allt hafi tekist að koma málinu í þann búning að það sé tækt til þess að við afgreiðum það á Alþingi. Það býður auðvitað heim þeirri hættu að það finnist á því gallar þegar málið fer af stað, verður að lögum, og við það verðum við að búa. En ég held að þá sé rétt að við séum öll mjög árvökul og ekki síst dómsmálaráðuneytið sem fer með þessi mál, að við séum mjög á tánum við að bregðast við ef upp koma atriði sem valda réttaróvissu eða misskilningi.

Ég ítreka enn og aftur að betra hefði verið að hafa lengri tíma. Við hefðum getað haft lengri tíma ef betur hefði verið að verki staðið. En að öllu virtu hef ég skrifað undir nefndarálitið og þær breytingartillögur sem lagðar eru fram og mun að sjálfsögðu styðja að frumvarpið verði að lögum. En þessi málsmeðferð öll er ekki í samræmi við það sem ég hefði helst kosið.