148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[22:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Mér þykir nú allt of vænt um fullveldisafmælið til þess að hnýta þessari hörmung þar við. Vitleysa verður ekki rétt þótt maður geri hana aftur og aftur. Það er einfaldlega svo. Þó að það sé sárt að horfa upp á fólk neita að taka rökum og neita að viðurkenna að það hafi haft rangt fyrir sér, sem er býsna algengur sjúkdómur í þeirri stétt sem við tilheyrum, mun sá dagur koma innan skamms, fari svo að menn steypi sér út í að hella 100 milljörðum niður í Vatnsmýrina, að menn munu sjá að það voru ein hrapallegustu mistök Íslandssögunnar. Ég vona sannarlega að þegar þau mistök verða ljós innan skamms verði þau ekki tengd 100 ára fullveldisafmæli Íslands.