148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[22:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í ljósi ummæla síðasta ræðumanns, hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar, leiðir það auðvitað af samskiptum okkar við Evrópusambandið, í gegnum Evrópska efnahagssvæðið, að við þurfum að vera á varðbergi gagnvart því sem kallað hefur verið framsal ríkisvalds. Í þessu máli tel ég alveg ótvírætt að við séum vel innan þeirra marka sem núgildandi stjórnarskrá heimilar. Það eru vissulega uppi álitamál í þessu. Þau hafa verið rædd og skoðuð, raunar afgreidd í síðustu viku með afgreiðslu þingsályktunartillögu um afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara. Þetta er líka atriði sem var tekið fyrir í nefndum þingsins fyrr í vetur þegar mál voru til kynningar og þingnefndir gáfu þá vink um að þær teldu að þetta væri í lagi. Sjónarmið hafa komið fram um annað, en ég held að það sé álit færra sérfræðinga, (Forseti hringir.) sem allsherjar- og menntamálanefnd ræddi við um nákvæmlega þetta atriði, (Forseti hringir.) að við séum á góðum stað og höfum vissulega í öðrum tilvikum gengið lengra hvað þetta varðar.