148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[22:49]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir þau sjónarmið — lesist: staðreyndir — sem fram hafa komið í kvöld að óforsvaranlegt sé hversu seint málið kom fram. Það eru engar góðar né gildar afsakanir fyrir því í ljósi þess að um tvö ár eru síðan ljóst var að leggjast þyrfti í undirbúning fyrir þá innleiðingu. En vonandi er hægt að læra af því. Ég vona að þetta verði ekki fordæmisgefandi á Alþingi í stórum og yfirgripsmiklum málum eins og þessu sem snertir öll svið samfélagsins.

Það er sorglegt að sá tími sem þó hefur fengist til að ræða málið núna hefur farið í að ræða hversu lítill tími hefur fengist til að ræða það. [Hlátur í þingsal.]

Að lokum vil ég hrósa allsherjar- og menntamálanefnd fyrir vinnuna sem hún vann. Sú sem hér stendur fékk að fylgjast með henni og það var virkilega áhugavert og vel unnið og vel staðið að málum. Einnig vil ég hrósa starfsfólki nefndasviðs fyrir langlundargeð og þolinmæði gagnvart fundandi þingmönnum fram á nótt og kvöld og á öllum tímum.