148. löggjafarþing — 79. fundur,  12. júní 2018.

Ferðamálastofa.

485. mál
[23:07]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti atvinnuveganefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um Ferðamálastofu.

Nefndin fjallaði um frumvarpið að nýju eftir 2. umr. og leggur til nokkrar breytingar til lagfæringar á því. Lögð er til breyting á 6. gr. og 4. mgr. 8. gr. til að orðalag samræmist betur ákvæðum frumvarps til laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Einnig er lögð til lagfæring á orðalagi 9. gr. um upplýsingamiðstöðvar, annars vegar til að samræma orðalag og hins vegar til að fella brott tilvísun í hugtök sem ekki eiga lengur við, þ.e. bókunarþjónustu og ferðaskipuleggjanda. Lagfæring á orðalagi 9. gr. lýtur að því að kveða á um að upplýsingamiðstöðvar tilkynni starfsemi sína en ekki að notað verði hugtakið skráning eða skráningarskylda. Þá er lögð til orðalagsbreyting á lokamálsgrein 8. gr. þar sem í upphaflegu frumvarpi hefði aðeins átt að vísa til trygginga samkvæmt frumvarpi til laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum.