148. löggjafarþing — 79. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[23:57]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er kannski hægt að segja í upphafi ræðu núna að berin séu súr. Það sem hefur komið fram, og kom vel fram í máli hæstv. utanríkisráðherra, var einfaldlega að aldrei hafði komið beiðni frá landbúnaðarráðherra til utanríkisráðuneytisins um að framfylgja vilja Alþingis um að sækjast eftir því að hraða innleiðingu og þar með auka hraðann á því frelsi sem við ætlum að innleiða. Það er hjákátlegt að hlusta á hæstv. fyrrverandi landbúnaðarráðherra halda innblásna ræðu um þetta mál og velta því fyrir sér af hverju hún hafi ekki komið því í verk. Það er ákveðið rannsóknarefni sem ég held að sitji kannski svolítið eftir þennan dag. Það eru vafalaust ágætar og gildar skýringar fyrir því, en það sem hefur þó gerst hér í dag er að þingið hefur gætt að því að fylgja því eftir sem það hefur áður samþykkt. Okkar hlutverk er þá að vera gæslumenn þess sem var samþykkt hér í ágúst/september 2016, að unnið væri eftir þeim átta meginpunktum sem meiri hluti atvinnuveganefndar þá og Alþingi samþykkti. Einn af þeim punktum var nákvæmlega sá sem nú hefur verið afhjúpað að hefur brugðist. Það er veruleikinn sem við skulum ekki reyna að víkja okkur undan.

Hvers vegna var það? Hvers vegna var utanríkisráðuneytinu ekki sent erindi frá landbúnaðarráðuneytinu til að fylgja þessu atriði eftir? Hvers vegna var það svo að þegar núverandi hæstv. landbúnaðarráðherra tók við ráðuneytinu í byrjun desember og fór yfir hverju væri búið að fylgja eftir af þeim atriðum sem Alþingi ályktaði um við innleiðingu tollasamnings og samþykktar búvörusamninga var það meira og minna óunnið? Það er einfaldlega þannig, ég get ágætlega vitnað um það. Ég tók við því verki ásamt Brynhildi Pétursdóttur, hv. fyrrverandi þingmanni hér, að fara í þá vinnu 7. febrúar sl. Veruleikinn er sá að eftir þennan tíma liggur ekkert eftir. Við höfum sóað vikum og mánuðum í að framfylgja því sem við höfðum rætt og samþykkt á Alþingi. Þess vegna erum við í þessari stöðu hér í dag. Það er dapurlegt en ekki óvænt að við skulum þurfa að taka umræðuna um landbúnaðarmál af ekki meiri dýpt en við gerum oft og tíðum.

Ég vil segja við hv. þm. Smára McCarthy til að hann velti fyrir sér framleiðslumagninu og slíkum hlutum: Ágætisgreining hjá hv. þingmanni en ég minni á að við erum að tala um 230 tonn af sérostum sem eru framleiddir á Íslandi, það eru ekki tugþúsundir tonna eða þúsundir tonna, það eru 230 tonn af sérostum og málið snýst um þá. Það var hins vegar engan veginn á hreinu þegar meiri hluti atvinnuveganefndar fjallaði á sínum tíma um málið hvað tilheyrði þessum sérostakafla. Þess vegna stendur í meirihlutaálitinu að það skuli þá vera sérostar sem eru ekki í beinni samkeppni við innlenda framleiðslu. Sá varnagli var þá sleginn. Það er ekki verið að svíkja neitt. Það er ekki verið að ganga á bak neinna orða. Það er einfaldlega verið að taka umræðuna inni í þingsalnum og gæta að þeim atriðum sem Alþingi hefur áður fjallað um og samþykkt. Það er veruleiki málsins. Við komumst að því að nánast ekkert hafði verið gert.

Á margan hátt hefur umræðan verið mjög upplýsandi um þetta mál og upplýsingar hér komið fram eins og kom fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra áðan. Það er náttúrlega ákaflega sérstakt ef við ætlum að meta frjálsræði og frelsi á Íslandi og mæla það í kílóum í kjöti og mjólk. Er það ekki sérstakur mælikvarði á frelsi? Umræðan um frjálslyndi á Íslandi virðist einhvern veginn snúast fyrst og fremst um það hvort flutt sé inn meira eða minna af landbúnaðarvörum. Samt erum við með einhverja frjálslyndustu tollastefnu í landbúnaði í þeim heimshluta sem við viljum helst bera okkur saman við. Það kom líka ágætlega fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra áðan.