148. löggjafarþing — 80. fundur,  17. júlí 2018.

verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

675. mál
[13:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins. Tillagan er flutt sameiginlega af formönnum þeirra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi. Hún er tvíþætt og hljóðar svo:

Alþingi ályktar eftirfarandi, í tilefni af aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands:

a. Stofnaður verði Barnamenningarsjóður Íslands sem njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár, 2019–2023, 100 millj. kr. á ári. Sjóðurinn hafi það að markmiði að fjármagna og styrkja verkefni á sviði barnamenningar en jafnframt verði lögð áhersla á verkefni sem efli samfélagsvitund og stuðli að lýðræðislegri þátttöku barna í samfélaginu og verkefni er stuðli að áframhaldandi innleiðingu barnasáttmálans, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Annað hvert ár verði efnt til Barnaþings sem taki til umfjöllunar málefni tengd börnum og ungmennum og hagsmunum þeirra.

Forsætisráðherra skipi fimm manna stjórn sjóðsins og fimm varamenn. Stjórn sjóðsins tilkynni um úthlutun úr sjóðnum á degi barnsins ár hvert.

Forsætisráðherra setji nánari reglur um starfsemi sjóðsins að fengnum tillögum sjóðstjórnar. Þær verði birtar í Stjórnartíðindum. Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands, sjái um umsýslu og vörslu sjóðsins

b. Hafin verði smíði hafrannsóknaskips með framlagi af fjárlögum næstu þrjú ár, 2019–2021, sem skiptist þannig að 300 millj. kr. verði varið til hönnunar og undirbúnings á árinu 2019 og 1.600 millj. kr. hvort ár 2020 og 2021 til smíði skipsins. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði falin framkvæmd þessa.

Herra forseti. Eins og fram er komið er tillaga þessi lögð fram í tilefni aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands og miðar annars vegar að því að efla verkefni í þágu barna og ungmenna og hins vegar eflingu rannsókna í þágu lífríkis og auðlinda í hafinu umhverfis Ísland.

Barnamenningarsjóður var stofnaður árið 1994 í tilefni af lýðveldisafmælinu og ári fjölskyldunnar og hafði það hlutverk að styrkja verkefni á sviði barnamenningar. Rekstri sjóðsins var hætt árið 2016.

Þátttaka barna og ungmenna í menningu er mikilvægur þáttur þess að lifa í frjálsu samfélagi og menningarlæsi og menningarþátttaka eru veigamikil atriði í uppvexti barna og unglinga. Kynni barna og ungmenna af menningu og listum eykur víðsýni og umburðarlyndi. Þátttaka í menningarstarfi eykur vitund um lýðræði, réttlæti og sögulegt samhengi.

Er það sameiginleg afstaða flutningsmanna tillögunnar að nú þegar við fögnum aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands sé viðeigandi að stofnaður verði nýr og öflugur Barnamenningarsjóður sem styðji við verkefni á sviði lista og menningar sem unnin eru fyrir börn eða með virkri þátttöku barna. Markmiðið er að styrkja börn til virkrar þátttöku í menningarlífi, listsköpun, hönnun og nýsköpun og leggja þannig áherslu á sköpunarkraft barna og ungmenna sem mun verða lykilhæfni í þeim áskorunum sem blasa við okkur í fjórðu iðnbyltingunni.

Við framkvæmd tillögunnar verður haft að leiðarljósi að sjóðnum er ætlað að styrkja verkefni sem eru unnin fyrir börn, með börnum og af börnum. Sömuleiðis gerir tillagan ráð fyrir að lögð verði áhersla á verkefni sem efli samfélagsvitund og stuðli að eflingu lýðræðislegrar þátttöku barna í samfélaginu og áframhaldandi innleiðingu barnasáttmála. Sérstök áhersla verður lögð á verkefni sem hafi það að markmiði að efla samfélagslega þátttöku barna innflytjenda og flóttafólks og barna sem búa við bágan efnahag.

Ég hef þegar sett af stað vinnu við endurskoðun laga um umboðsmann barna og er þar m.a. ráðgert að festa barnaþing í sessi sem umfjöllunarvettvang um stöðu og hagsmuni barna og ungmenna hér á landi og í alþjóðlegu samhengi.

Gert er ráð fyrir að Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands, annist umsýslu sjóðsins en sú stofnun fer þegar með umsýslu annarra sjóða á sviði menningar, lista og æskulýðsstarfs.

Stjórn sjóðsins verður skipuð af forsætisráðherra samkvæmt tilnefningum frá mennta- og menningarmálaráðherra, frá embætti umboðsmanns barna, einn samkvæmt tillögu frá Bandalagi íslenskra listamanna og einn samkvæmt tillögu ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna en formaður sjóðstjórnar verður skipaður af forsætisráðherra.

Herra forseti. Síðari hluti tillögunnar kveður á um að hafin verði smíði hafrannsóknaskips með sérstöku viðbótarframlagi af fjárlögum næstu þrjú ár. Nýting sjávarfangs lagði grunn að efnahagslegu sjálfstæði Íslendinga, og þar með fullveldinu, og það er stefna stjórnvalda að nýting lifandi auðlinda sjávar sé byggð á bestu fáanlegu þekkingu og ráðgjöf hverju sinni.

Ísland hefur að mörgu leyti verið í fararbroddi þegar kemur að rannsóknum sjávar og hafrannsókna og er litið til okkar sem fyrirmyndar á því sviði. Breytingar hafa orðið í umhverfi sjávar, loftslag er að hlýna, sjávarstraumar að breytast. Vistkerfi hafsins eru að breytast og í hafinu í kringum Ísland og norðan við okkur eru þessar breytingar miklar og hraðar. Norðlægar tegundir hörfa norðar, suðlægar tegundir sækja á. Dæmi um þessar breytingar er að loðna, sem er norðlæg tegund, hefur nú þegar fært sig norðar í hafið. Miklar áskoranir eru fólgnar í vöktun umhverfisþáttar vistkerfa og breytinga í afkomu einstakra stofna. Þá þarf að fylgjast mjög vel með kolefnisbúskap og súrnun sjávar. Aukning plastmengunar í hafi og annarrar mengunar kallar einnig á auknar rannsóknir, auk þess sem þörf er á auknum örverurannsóknum. Nú þegar er kortlagning hafsbotnsins og efstu jarðlaga hans í lögsögu Íslands hafin sem er mjög umfangsmikið verk og kallar á mikið úthald öflugra skipa en áformað er að ljúka því verki innan tíu ára. Nýtt og vel búið hafrannsóknaskip er forsenda þessara rannsókna sem og annarra haf- og fiskirannsókna.

Íslendingar þurfa að ráða yfir góðum og vel búnum rannsóknaskipum sem geta sinnt haf- og umhverfisrannsóknum og þau hafa líka mikilvægu kennsluhlutverki að gegna og mikilvægt er að á nýju hafrannsóknaskipi verði unnt að sinna bæði kennslu og rannsóknum fyrir háskólanemendur en líka kennslu og fræðslu fyrir önnur skólastig.

Nýtt hafrannsóknaskip mun leysa af hólmi eldra rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, Bjarna Sæmundsson, sem er að verða 50 ára gamalt og stenst ekki lengur þær kröfur sem gerðar eru til rannsóknaskipa um aðbúnað og tæki fyrir utan að vera þungt í rekstri.

Með þessari tillögu er horft til þess að Ísland geti áfram verið í forystu í góðri umgengni við náttúruna og í haf- og fiskirannsóknum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt öllu lengra en legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar er taki tillöguna til skoðunar í samráði við hv. atvinnuveganefnd og til síðari umr. og afgreiðslu á hátíðarfundi Alþingis sem fram fer á morgun, 18. júlí, að Lögbergi á Þingvöllum við Öxará.