148. löggjafarþing — 82. fundur,  18. júlí 2018.

ávarp forseta Alþingis.

[14:01]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Fundur er settur á Alþingi að Lögbergi á Þingvöllum við Öxará.

Forseti Íslands og forsetafrú, alþingismenn, ráðherrar, forseti danska þingsins, aðrir erlendir gestir og góðir landsmenn. Við komum hér saman til að minnast þess að þennan dag fyrir 100 árum, 18. júlí 1918, var samningum Íslendinga og Dana um fullveldi Íslands lokið og samningurinn undirritaður í Alþingishúsinu.

Sambandslagasáttmálinn er ótvírætt stærsti áfanginn í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Endurreisn Alþingis 1845, stjórnarskráin 1874 með löggjafarvaldi til handa Alþingi, heimastjórnin 1904 með innlendum ráðherra og þingræði voru vissulega þýðingarmikil skref en Ísland var þó enn hluti af danska ríkinu. Með fullveldissamningnum, sem tók gildi 1. desember 1918, varð Ísland sérstakt ríki, konungsríki, með fullt vald yfir eigin málum og skipaði sér þannig í sveit fullvalda ríkja. Og til að árétta hversu mikilvæg tímamót þetta voru tóku dönsk stjórnvöld að sér, samkvæmt ákvæðum samningsins, að tilkynna öðrum ríkjum að Danmörk hefði viðurkennt Ísland sem fullvalda ríki.

Með fullveldissamningnum 1918 lýkur því eiginlegri sjálfstæðisbaráttu Íslendinga sem staðið hafði í 70 ár, eða frá því að Jón Sigurðsson birti grein sína Hugvekju til Íslendinga og lýsti þar rökum fyrir því að Íslendingar ættu að ráða sér sjálfir. Þó að mikill ljómi hvíli yfir lýðveldisstofnuninni 1944 er það samt svo að af uppsagnarákvæði sambandslaganna leiddi að lýðveldisstofnunin var í reynd fyrirsjáanlegur atburður, en fól ekki í sér stórvægileg pólitísk tíðindi með sama hætti og fullveldið. Með það í huga að fullveldi felur í sér óskorað sjálfstæði getum við því með réttu sagt að 1. desember sé hinn raunverulegi sjálfstæðisdagur íslensku þjóðarinnar.

Rétt er að halda því á loft að sambandslögin voru afrakstur af vinnu danskra og íslenskra þingmanna, enda var samninganefndin skipuð trúnaðar- og áhrifamönnum beggja þessara þjóðþinga. Það er því Alþingi mikill heiður að hafa hér með okkur í dag forseta danska Þjóðþingsins. Það er okkur líka mikil ánægja að þingforsetar fjölmargra annarra vinalanda og aðrir erlendir gestir heiðra okkur með nærveru sinni á þessum hátíðisdegi. Fyrir þann virðingar- og vináttuvott færi ég þeim þakkir Alþingis.

Þegar Alþingi hið forna kom saman á Þingvöllum að sumri ár hvert til að semja lög og kveða upp dóma var hér ávallt samankominn mikill fjöldi fólks úr öllum landshornum. Hér var því lagður grundvöllur að því þjóðfélagi sem til varð á Íslandi. Þess vegna er enginn staður eins vel til þess fallinn og Þingvellir að þar sé minnst merkisatburða í okkar sögu.

Eftir að Alþingi flutti aðsetur sitt til Reykjavíkur er orðin rótgróin hefð að það komi hér saman á hátíðar- og minningarstundum í sögu þjóðarinnar. Hér hafa oft samhliða þingfundum verið haldnar þjóðarhátíðir. Hér höfum við tvívegis fagnað afmæli landnáms og Íslandsbyggðar, 1874 og 1974. Hvergi nema á Þingvöllum kom til greina að stofna lýðveldið Ísland 1944. Hér fögnuðum við 1000 ára afmæli Alþingis árið 1930, 17. júní 1994 fögnuðum við 50 ára afmæli lýðveldisins og minntumst þess árið 2000 að þá voru 1000 ár liðin frá því að Alþingi leiddi kristinn sið í lög hér á Þingvöllum.

Alþingi er bundið Þingvöllum órjúfanlegum böndum og Þingvellir Alþingi. Fram hafa komið hugmyndir um á umliðnum árum að hlúa betur að þeirri arfleifð sem tengir Alþingi í dag við hið forna Alþingi á Þingvöllum. Í þeim efnum hefur helst verið horft til þess að setning Alþingis gæti farið fram á Þingvöllum. Það sjónarmið styð ég heils hugar. Hér á Þingvöllum mætti hafa þingsetningarathöfn að vori að loknum reglulegum þingkosningum hverju sinni og skapa því viðeigandi umgjörð í sátt við náttúruna og helgi staðarins. Á fundi sínum í gær samþykkti Alþingi ályktun um að ganga til samstarfs við Hið íslenska bókmenntafélag um útgáfu tveggja ritverka sem tengjast Þingvöllum og sjálfstæðisbaráttu okkar með ólíkum en beinum hætti. Gefið verður út rit um Þingvelli í íslenskri myndlist þar sem dregið verður fram hvernig listamenn hafa túlkað hina stórbrotnu umgjörð Þingvalla. Þá kemur út nýtt yfirlitsverk um sögu íslenskra bókmennta frá landnámi til okkar tíma. Bókmenntir okkar, ekki síst fornbókmenntirnar, eru grunnurinn að sjálfsmynd okkar. Þær voru því mikilvæg forsenda þess að við gátum háð sjálfstæðisbaráttuna.

Ágætu tilheyrendur. Þegar Íslendingar hófu sjálfstæðisbaráttu sína á 19. öld var viljinn til sjálfstæðis ótrúlega sterkur meðal þjóðarinnar. Við vorum fámenn, vorum aðeins um 58.000 þegar endurreist Alþingi kom saman 1845, og við vorum líka fátæk þjóð af efnislegum gæðum. En þjóðin var auðug af andlegum verðmætum. Við áttum okkur dýrmætar bókmenntir, sterka vitund um sögu þjóðarinnar og sameiginlegt tungumál.

70 árum síðar, 1918, vorum við aðeins rúmlega 90.000 og enn fátæk þjóð en við höfðum metnað og djörfung til að standa á eigin fótum og taka fulla ábyrgð á eigin málum. Þjóðin hefur sýnt þrautseigju á erfiðleikatímum og jafnan unnið sig út úr þeim. Á þeim 100 árum sem liðin eru frá fullveldinu hafa risaskref verið tekin í framfarasókn þjóðarinnar þó að vissulega megi og eigi að gera betur á ýmsum sviðum.

Við getum því verið full bjartsýni um framtíðina. Við höfum aldrei verið betur stödd til að takast á við ókomin ár. Við erum fleiri, við erum betur menntuð, við búum að tækni, þekkingu og efnislegum gæðum langt umfram það sem nokkru sinni fyrr hefur verið í 1144 ára búsetu okkar í þessu landi.

Sameinumst um að deila þessum gæðum með sjálfbærni, jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi og þá mun Íslandi vel farnast.