148. löggjafarþing — 82. fundur,  18. júlí 2018.

verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

675. mál
[14:26]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Virðulegir forsetar. Kæra þjóð. Skáldið Einar Bragi orti í Báruljóði:

Lítill kútur

lék í fjöru

og hló

báran hvíta

barnsins huga

dró.

Langrar ævi

yndi og vos

á sjó,

báran svarta

bylti líki

og hló.

Í þessu áhrifaríka ljóði lýsir skáldið vel nöprum veruleika Íslendinga langt fram á okkar daga og sýnir hvað við erum lítil og máttvana gagnvart náttúruöflunum, jafnvel þeim sömu og eru undirstaða lífsafkomu okkar. Á sama tíma og þau fæða okkur og klæða, og seiða til sín í fegurð sinni, geta þau breyst í ófreskju í einu vetfangi, hrifsað til sín líf okkar eða kvalið seigdrepandi dauðdaga; skilið ástvini eftir berskjaldaða og agnarsmáa.

Með tímanum hefur mannskepnan þó lært að búa í haginn, hagnýta tækni þannig að náttúran fer ekki jafn óblíðum höndum um okkur í amstri dagsins en um leið gengið svo nærri þolmörkum hennar á mörgum sviðum að risastór skuggi hvílir yfir mannkyninu. Brýnasta verkefni okkar í dag er að endurskoða algjörlega umgengni um náttúruna þannig að við stefnum ekki tilvist mannsins og lífríkisins, eins og við þekkjum það, í voða.

Við Íslendingar þurfum að afla nýrrar þekkingar, vera varkár, nýta landið okkar skynsamlega og með sjálfbærum hætti en einnig búa þannig um hnútana að við getum tekið þátt í verkefnum sem eðlisins vegna krefjast fjölþjóðlegs samstarfs. Það er nauðsynlegt til að tryggja fullveldi okkar og styrkja það. En á meðan náttúran getur verið duttlungafull og stundum miskunnarlaus er menningin verk okkar sjálfra. Skipting efnahagslegra og félagslegra gæða, skólar og heilbrigðisþjónusta eða auðlindastýring eru t.d. ekki náttúrulögmál — þar erum við sjálf okkar gæfu smiðir. Við verðum því að hafa getu til að takast á við grundvallarverkefni samtímans. Með skynsamlegri samneyslu getum við tryggt hverjum einasta íbúa landsins mannsæmandi lífskjör og með nýrri stjórnarskrá fest þessi og önnur grundvallarréttindi enn betur í sessi.

En við þurfum líka að gangast við ábyrgð okkar sem manneskjur og muna hvaðan við komum. Það er of stutt síðan Íslendingar gátu ekki brauðfætt börnin sín og flúðu þúsundum saman vestur um haf í leit að betra lífi til að við getum nú litið undan, þegar milljónir manna eru á flótta undan fátækt, stríði og loftslagsógnum. — Jeg bør sige det på skandinavisk også. Jeg minder om at en af vores vigtigste opgaver er at vise kærlighed og medfølelse og hjælpe vores medbrødre over hele verden som nu flygter fattighed og krig uafhængig af religion eller hudfarve.

Þótt sú litla þingsályktunartillaga sem hér er rædd sé ekki lausn á öllum okkar vandamálum er hún táknræn fyrir vilja allra þingflokka til að horfa til framtíðar og á það sem skiptir okkur mestu þrátt fyrir allt. Annars vegar er yfirlýsing um rétt barna og nauðsyn þess að þau fái öll að njóta blæbrigða lífsins en hins vegar mikilvægi náttúruauðlinda okkar, hafsins í þessu tilfelli, og ábyrgð sem á herðum okkar hvílir, að vernda þær.

Í dag er vissulega mikilvægur og merkilegur áfangi í sögu þjóðar sem lifði í árhundruð, ekki aðeins af náttúrunni heldur einnig þrátt fyrir hana. Nú hins vegar, þegar við höfum komið ár okkar vel fyrir borð, verður nánasta framtíð að snúast um að tryggja öllum réttmæta hlutdeild í gæðum landsins. Fullveldi þjóðar er nefnilega dýrmætt og eitthvað til að gleðjast yfir en fölnar óneitanlega ef við getum ekki tryggt öllum þeim sem henni tilheyra möguleika á að lifa við öryggi og reisn alla ævi.

Kæra þjóð, til hamingju með daginn.