149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega nefndi ég ýmsar aðgerðir sem farið var í til þess að höfða til ferðamanna, en þennan mikla fjölda sá enginn fyrir. Ef það væru til einhverjar aðgerðaáætlanir sem miðuðu að því að fara í þessa átt eða að til væri lifandi plagg eins og aðgerðaáætlun í loftslagsmálum þar sem við værum sífellt að kanna horfur — engin af þeim áætlunum sá fyrir þennan rosalega vöxt í ferðaþjónustu. Á þeim forsendum er það því ákveðinn hvalreki. Vöxturinn varð miklu meiri en við gerðum ráð fyrir.

Varðandi gjaldeyrinn, eins mikið og hann hjálpaði til hvað þetta varðar kom hann sér náttúrlega rosalega illa í ýmsu öðru. Ég var t.d. námsmaður erlendis á þessum tíma. Allt í einu var ég orðinn tvöfalt ríkari á íslenskan mælikvarða fyrir námslánin mín sem ég fékk úti. Ég þurfti að borga miklu meiri skatta, sem kom þó nokkuð mikið niður á okkur þegar við bjuggum úti, því að við þurftum þá að bæta við aukanámslánum til þess að hafa efni á því að búa þar. Gjaldeyririnn er því stundum blessun og stundum bölvun. Hún gengur upp og niður. Það er vandamálið sem ég er að reyna að lýsa. Kannski getum við haldið áfram að nota krónuna en farið í einhvers konar bindingar svipað og Danmörk gerir. Kannski er það algjörlega nýr gjaldmiðill. Ég ætla ekki að þykjast vera sérfræðingur í því og segja hvaða leið eigi að fara. Ég er bara að lýsa því að sveiflurnar eru vandamálið. Það sem er gott fyrir suma, þegar krónan sveiflast upp eða niður, er slæmt fyrir aðra á sama tíma.