149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þannig að það fari ekkert á milli mála erum við með þessa staðla og það er IPSAS-staðallinn sem hentar kannski betur til að meta fjárhagslega stöðu og afkomu rekstraraðila meðan GFS-ið hefur þann eiginleika að sýna betur hagræn áhrif.

Varðandi vegamálin var í raun og veru rætt á sínum tíma hvort það væri virkilega svo að menn ætluðu hreinlega að ráðstafa einhverri fjárhæð af varasjóði til samgöngumála. Ég taldi mig hafa gert grein fyrir því að það getur í sjálfu sér ekki gengið þannig. Það var mat ríkisstjórnarinnar að umfang af nauðsynlegum, ófyrirséðum viðbótarviðhaldsverkefnum og eftir atvikum öðrum framkvæmdum sem við þyrftum að ráðast í og væri góð fjárfesting að ráðast í næmi allt að 4 milljörðum. Það myndi síðan koma í ljós eftir því sem verkin myndu vinnast hvort það myndi allt saman ganga út af varasjóðnum á yfirstandandi ári. Það af því sem ekki gerir það verður þá inni í fjárhagssummum til framtíðar.

Ég tel að heildaráhrif af kolefnisgjaldinu á verðlag sem eru nefnd til sögunnar séu mjög takmörkuð og kalli ekki á sérstakar viðbótarráðstafanir til mótvægis. Það er hins vegar alveg sanngjörn og eðlileg spurning hvernig okkur gengur að ýta undir með þeim breytingum eða fá fram þessi áhrif í orkuskiptunum. Þar ætti að vera auðvelt að nálgast tölur um það hvað kemur inn af sparneytnari eða umhverfisvænni bílum. Það eru vísbendingar um árangurinn sem við erum að ná.

En ég hef líka sagt í umræðunni að við erum algerlega háð tækniframförum um alvöruárangur á því sviði. Svo verður maður aðeins sleginn niður þegar maður sér fréttir eins og þær í dag að eldfjöllin í dag losi jafnvel óvænt á ári (Forseti hringir.) nokkrum sinnum þá koltvísýringsmengun sem við erum að reyna að koma í veg fyrir.