149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:28]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Við erum nokkru vísari um ýmsa þætti. Ég held að mjög gagnlegt væri að fjárlögin væru sett fram á einum staðli þannig að hver sem vildi kynna sér þau hefði greiða leið að því að átta sig á stefnu stjórnvalda í þeim mikilvæga málaflokki sem ríkisfjármálin eru.

Ég ítreka að ég er svolítið hugsi yfir orðum ráðherra um ráðstöfun til vegamála, svo nauðsynlegar og ágætar sem slíkar framkvæmdir eru svo sannarlega, úr varasjóði. Meginviðfangsefnið í þeim samtölum og ræðuflutningi sem átti sér stað var að eitt af fjórum eða fimm skilyrðum sem eru sett í lögum um opinber fjármál, í 24. gr. ef rétt er munað, um skilyrði fyrir ráðstöfun fjár úr varasjóðnum, er að það sé ófyrirsjáanleiki, ófyrirséð útgjöld. Við þekkjum það sem höfum farið um vegina að slæmur vegur kemur ekki betri undan vetri en hann var, en það er ekkert ófyrirsjáanlegt við það. Það eru mjög miklar efasemdir um að þetta skilyrði laganna sé uppfyllt og ég held að við öll hér inni áttum okkur á því að hin rétta málsmeðferð er að sjálfsögðu sú að gera ráð fyrir útgjöldum af slíku tagi í fjárlögum eða í fjármálaáætlun eftir því sem fara gerir.